
Bandaríkjunum hefur fjölgað mjög þeim börnum sem greinast með ADHD. Hið sama er reyndar upp á teningnum hér og víðar á Vesturlöndum. Brugðist hefur verið við með því að gefa börnum lyf. En hvað ef málið er ekki svona einfalt? Hvað ef rætur athyglisbrestsins liggja í umhverfi okkar, tækni og skjánotkun, mataræði, streitu, skorti á frjálsum leik og of miklu áreiti? Johann Hari setur fram athyglisverðar kenningar í bók sinni, Horfin athygli, Hvers vegna er svona erfitt að einbeita sér og hvað er til ráða?
Johann styður mál sitt með því að vitna í fjölmarga vísind- og tæknimenn sem hann tók viðtöl við meðan á vinnslu bókarinnar stóð. Hann kynnti sér einnig rannsóknir í sálfræði og félagsvísindum, næringarfræði og læknisfræði. Allt ber að sama brunni. Nútímalífshættir eru manninum ekki hollir og verulegar líkur á að þeir séu að skapa okkur erfið og illviðráðanleg vandamál.
Hann byrjar á að rekja hvernig rannsóknir vísindamanna hafa sýnt að einbeitingartími manna hefur styst umtalsvert síðustu áratugi. Það eru ekki bara börn sem finna fyrir auknum erfiðleikum með að halda athygli og einbeitingu í daglegu lífi. Johann bendir á að flestir nútímamenn telja sig geta gert tvo og jafnvel þrjá hluti í einu, þetta er kallað að multitaska en hann sýnir fram á að rannsóknir hafi sýnt að sá sem multitaskar gerir alla hluti illa

Samfélagsmiðlar hannaðir til að vekja fíkn
Hann sýnir einnig fram á hvernig samfélagsmiðlar eru beinlínis hannaðir til að draga fólk inn og halda því föstu. Fyrirtækin safna upplýsingum um okkur, áhugamál og það sem kveikir athygli okkar og sendir okkur meira af slíku og ekki bara meira heldur svæsnari dæmi í hvert eitt sinn. Þekking á sálfræðilegri uppbyggingu mannsins er beinlínis notuð til þess að gera hann háðan tækninni, breyta hegðun hans, viðhorfum og gildum. Nýjasta dæmið er hvernig stuðningsmönnum Trump tókst í kosningabaráttunni að fá jafnvel innflytjendur af suður-amerískum uppruna til að kjósa Trump þótt yfirlýst markmið hans og stefna væri að flytja þau öll úr landi. Annað dæmi er Bolsonaro í Brasilíu. Það er ekkert siðlegt við þær aðferðir sem tæknigeirinn beitir og það virðist ekki líklegt að neitt komi til með að stoppa þá á næstunni.
En það er ekki bara græðgi eigenda tæknirisanna sem hafa skaðað athyglisgáfuna og einbeitingarhæfni mannsins. Johann leiðir okkur í gegnum áhrif breytinga á umhverfi okkar, mataræði og lífsháttum hefur beinlínis skilað þessu. Hann talar um samspil streituvaldandi þátta í umhverfi barna og einkenna ADHD, hann sýnir fram á aukefni í mat hafa sömuleiðis áhrif á getu manna til að hugsa og hvernig streitan sem við fullorðna fólkið búum við rænir okkur allri getu til að vera með athyglina í lagi. Sú staðreynd að víða á Vesturlöndum eru börn hætt að leika sér frjáls og eftirlitslaus hefur einnig áhrif á þroska þeirra og eðlilega uppbyggingu þekkingar og hæfni. Í Bandaríkjunum er fólk svo hrætt um börnin sín að þau fá ekki að ganga ein í skólann, ekki vera ein úti að leika sér og sjaldan gera eitthvað upp á eigin spýtur. Skólakerfið er enn fremur hannað til að setja hömlur á frjálsan leik barna og þetta er gert þrátt fyrir að við vitum að börn læra mest og best í gegnum leik.
Það þarf að lesa þessa bók hægt. Það er ekki hægt að taka inn allt það sem hér er farið ofan í öðruvísi. Í þessari bók er að finna miklar upplýsingar og athyglisverðar kenningar og niðurstöður að það beinlínis verður að gefa sér tíma til að ígrunda þær og skilja. Stöðugt áreiti er mjög skaðlegt heilsu manna og hefur áhrif á minni, athyglisgáfu og einbeitingartíma. Höfundur bendir einnig á að þetta er ekki okkar sök, við sem einstaklingar getum í raun ekki breytt ástandinu nema að litlu leyti. Við getum tekið til í eigin ranni en stóru myndinni breytum við ekki. Það þurfa stjórnvöld að gera og sameiginlegt átak þarf til. Stjórnvöld þurfa að auka regluverk í kringum matvælaiðnað, tækni og vinnumarkað en almenningur þarf að sameinast um að hafna þessari eilífu innrás tækni inn í líf fólks og hafna þeim óraunhæfu kröfum sem gerðar eru til okkar í vinnu og einkalífi. Við þurfum að hægja á okkur. Hegða okkur í samræmi við mannlega getu og hætta að trúa að við getum stöðugt bætt á okkur verkefnum og gert allt í einu.
Hann fullyrðir að breytinga sé þörf. Að lífshættir nútímamannsins séu beinlínis að brjóta hann niður og eyðileggja það sem gerði okkur kleift að ná svona langt á þróunarbrautinni eða hugarflug, sköpunargáfa, einbeitingarhæfni og útsjónarsemi. Johann Hari skrifar mjög aðgengilegan texta og hefur einstakan hæfileika til að gera flókna hluti skiljanlega. Að lestri loknum situr eftir sú spurning hvort ekki sér vert að taka skref í áttina að hægara lífi og byggja aftur upp hæfni til að vera í flæði sköpunar, með athyglina á einum hlut og einbeitinguna í lagi.
Comments