Í sumar hlupu níu manns í Reykjavíkurmaraþoninu til styrktar Samhjálp. Þar á meðal var
Sindri Fannar Ragnarsson. Hann og Guðmundur Skorri Óskarsson vinur hans voru í viðtali í jólablaði Samhjálparblaðsins og þar sagði Sindri Fannar frá aðdraganda þess að hann fór í meðferð í Hlaðgerðarkoti og náði bata. Hann sagði:
„Í kjölfarið fór ég í hörðustu neyslu sem ég hef nokkru sinni verið í. Var kominn í morfínefni og endaði nokkrum sinnum á sjúkrahúsi, fór bæði í öndunarstopp og fékk hjartakrampa en það nægði ekki til að ég stoppaði. Það gerðist ekkert fyrr en ég er orðinn svo veikur og ruglaður á geði að ég ákvað að kaupa mér flugmiða út til Óslóar í Noregi. Ég fór þangað með einhvern smápening fyrir hótelherbergi en endaði ráfandi um göturnar. Það hvarf allt um leið og ég kom út og ég var fljótt orðinn allslaus. Það var ekki góð tilfinning að vera á götunni í Ósló sem er borg sem ég þekki ekki neitt. En sem betur fer var ég með gott fólk að baki mér sem var tilbúið að hjálpa.
Ég vissi ekki hvað Hlaðgerðarkot var á þessum tíma og sóttist ekki eftir að komast þangað í meðferð sjálfur. Pabbi hringdi í mig þegar ég var þarna úti og spurði mig hvort ég vildi ekki þiggja pláss á Hlaðgerðarkoti. Ég sagði bara já. Það var ekki eins og ég hefði marga kosti í stöðunni eins og hún var. Systir pabba býr í Noregi og hún tók mig að sér á meðan ég beið eftir að komast að. Ég hringdi sjálfur daglega þangað. Pabbi setti mig í samband við Andra Má sem var að vinna þar þá og hann hjálpaði mér rosalega mikið á meðan ég beið þarna úti. Ég fékk að heyra reglulega í honum og ég reyndi að útskýra fyrir honum hversu mjög ég þyrfti á því að halda að komast að.“
Ætlaði ekki meðferð, vildi bara komast heim
Þrátt fyrir þessa viðleitni Sindra Fannars var hann langt frá því að vera tilbúinn til að taka á sínum málum. „Staðan var hins vegar þannig í hausnum á mér á þessum tíma að mig langaði ekkert að komast í meðferð. Mig langaði bara að komast heim til að geta haldið áfram að nota,“ segir hann. „En þau tóku ekki neina áhættu. Mér var fylgt upp í flugvél, tekið á móti mér á vellinum og mér skutlað beint í Hlaðgerðarkot. Ég fékk ekki einu sinni að gista heima hjá mér eina nótt.“
Hvað olli því þá að allt breyttist þegar þú komst í Hlaðgerðarkot? „Ja, það gerðist eitthvað,“ segir hann hugsi. „Ég geri mér ekki nákvæmlega grein fyrir hvað það var. Ég kom þarna inn, hafði verið óvelkominn alls staðar svo ótrúlega lengi, mér var búið að líða illa svo ótrúlega lengi og ég kom þarna inn á bænastund. Þar sátu allir þeir sem voru í meðferð í Hlaðgerðarkoti á þessum tíma og hver einasti einstaklingur var að biðja fyrir því að ég myndi eiga góða meðferð. Mér mætti svo mikill kærleikur. Mér fannst það mjög skrýtið en eitthvað gerðist innra með mér. Ég fékk einhverja svona tilfinningu og skildi að þau vildu mér öll raunverulega vel.“
Viðtalið við Sindra Fannar og Guðmund Óskar má lesa hér: https://www.samhjalp.is/_files/ugd/2dbfe3_804c97721a1748728e4459bee3212d7b.pdf
Σχόλια