Áfangaheimili

Samhjálp rekur tvö áfangaheimili í Reykjavík og eitt í Kópavogi.

Áfangaheimilið Brú

Einstaklingsíbúðir fyrir öll kyn

Alls eru 19 einstaklingsíbúðir á áfangaheimilinu Brú, að Höfðabakka 1 í Reykjavík. Íbúar á Brú hafa lokið langtímameðferð á meðferðarheimilinu  Hlaðgerðarkoti og leggja kapp á að byggja brú inn í framtíð án vímuefna – einn dag í einu.

Virkni er skilyrði fyrir búsetu á Brú en íbúar stunda nám, vinnu eða taka þátt í sérsniðnum úrræðum eftir atvikum. Íbúum er skylt að sækja AA-fundi ásamt viðtölum, íbúafundum og þjálfun á vegum Samhjálpar.

Markmiðið með starfsemi Brúar er að veita eftirfylgni og áframhaldandi endurhæfingu í kjölfar meðferðar í Hlaðgerðarkoti. Verkefnisstjórar áfangaheimilisins styðja íbúana til að temja sér nýja lífshætti og valdefla þá til lífs án vímuefna.

Fyrirspurnum skal beina á netfangið: afangaheimili@samhjalp.is.

Áfanga- og stuðningsheimilið M18

Stuðningsheimili fyrir karlmenn

Áfanga- og stuðningsheimilið að Miklubraut 18 er rekið í samvinnu við Félagsþjónustuna í Reykjavík og er heimili fyrir heimilislausa Reykvíkinga. Áfangaheimilið M18 samanstendur af sjö rúmgóðum einstaklingsherbergjum og einni einstaklingsíbúð og hýsir því átta karlmenn á hverjum tíma.

Heimilismenn matast í sameiginlegu rými og funda reglulega með verkefnastjóra heimilisins. Íbúar eiga auk þess í reglulegum samskiptum við félagsráðagjafa hjá Reykjavíkurborg og fá einstaklingsviðtöl með reglubundnum hætti.

Markmiðið með heimilinu er að styðja og valdefla íbúana til lífs án vímuefna. Til að sækja um vist á áfanga- og stuðningsheimilinu, M18, í Reykjavík þarf einstaklingur að tala við félagsþjónustu Reykjavíkurborgar. Ef honum hefur verið úthlutað félagsráðgjafa getur hann leitað til hans og skjólstæðingur og félagsráðgjafi gera umsókn saman.

Áfanga- og stuðningsheimilið D27

Stuðningsheimili fyrir karlmenn

Að Dalbrekku 27 (Nýbýlavegi 30) í Kópavogi er rekið áfanga- og stuðningsheimilið D27 fyrir velferðarsvið Kópavogs.

Þar eru átta rúmgóð einstaklingsherbergi en önnur aðstaða er sameiginleg. Heimilismenn eru í virku sambandi við félagsráðgjafa á vegum Kópavogsbæjar. Stuðningurinn felst einnig í reglubundnum fundum íbúa með verkefnisstjóra og starfsfólki heimilisins auk einstaklingsviðtala.

Markmiðið með heimilinu er að styðja og valdefla íbúana til lífs án vímuefna og til að verða virkir þátttakendur í samfélaginu. Til að sækja um vist á áfanga- og stuðningsheimilinu, D27, snýr fólk sér til félagsþjónustu Kópavogs óskar eftir forviðtali vegna dvalar á heimilinu.