Skip to main content

Metfjöldi sótti árlega Skötumessan var haldin í Gerðaskóla í Garði miðvikudaginn 19. júlí síðastliðinn. Að þessu sinni söfnuðust 7,7 milljónir króna og hlaut Samhjálp hæsta styrkinn í tilefni að fimmtíu ára afmæli samtakanna. Fyrirhugað er að nýta hann til endurbóta á elsta hluta húsnæðisins í Hlaðgerðarkoti. Um leið og við þökkum kærlega stuðninginn er ekki úr vegi að rifja upp stemninguna undir borðum og sögu messunnar.

Þetta var í átjánda skipti sem Skötumessa að sumri var haldin í Suðurnesjabæ og metfjöldi tók þátt. Um fimmhundruð manns gengu á skötuilminn og snæddu á annað hundrað kíló af skötu þótt margir hafi kosið fremur að gæða sér á saltfiski eða plokkfiski. Á þeim árum sem liðin eru frá fyrstu skötumessunni hafa safnast um 100 milljónir og fjölmörg góðgerðafélög notið góðs af.

Díana Hilmarsdóttir jós upp 47 lítrum af hamsatólg yfir lystuga skötuna á diskum gesta.

Það er Ásmundur Friðriksson alþingismaður sem er upphafsmaður að þessu einstaka verkefni og honum er efst í huga þakklæti fyrir allan þann stuðning sem hann og samstarfsmenn hans hafa notið í gegnum tíðina og sömuleiðis þakklæti til þeirra sem hafa aðstoðað hann við skipulagningu viðburðarins ár eftir ár.

Sævar Þorkell Jensson ber sig fagmannlega við að skammta á diskana.

Friðrik Óskarsson var gestur á Skötumessu að sumri.

„Þetta vatt upp sig,“ sagði Ásmundur í viðtali við Samhjálp fyrr í sumar. „Ég var byrjaður fyrr að halda litla veislu þar sem við komum saman nokkrir kunningjar til að styðja góðan vin sem var að ganga í gegnum erfiðleika. Þegar ég varð svo bæjarstjóri í Garði sprakk þetta út og varð 500 manna veisla á hverju ári. Þetta er mjög vinsælt og fólk mætir og skemmtir sér konunglega.“

Unga fólkið skemmti sér ekki síður en það eldra og ekki að sjá annað en að skatan hafi smakkast vel.

Eiríka og Guðbjörg amma hennar voru líka mættar á Skötumessuna.

Og það er augljóst af myndum að engum leiddist á Skötumessunni í ár og veitingarnar runnu ljúflega niður.