Skip to main content

Þórir Kjartansson og Natalie Narvaez Antonsdóttir

Natalie T. Narvaéz Antonsdóttir ætlar að hlaupa fyrir Samhjálp í Reykjavíkurmaraþoninu þann 19. ágúst næstkomandi. Hún er samtökunum að góðu kunn, enda hefur bæði unnið fyrir þau og stutt á margvíslegan hátt í gegnum tíðina. Natalie var í viðtali við páskablað Samhjálparblaðsins ásamt manni sínum Þóri. Þar sagði hún sögu sína.

„Já, ég var ekki komin á góðan stað. Ég hef alltaf verið sjálfstæð og flutti ung að heiman, en ég flutti ekki út af einhverju veseni,“ segir hún. „Ég er skilnaðarbarn en átti gott heimili. Pabbi var ekki mikið í mínu lífi þegar ég var að alast upp, en við áttum samt mjög gott samband fram til hans síðasta dags. Hann lést í nóvember 2019. Hann átti við alkóhólisma að stríða um nokkurt skeið. Það er mikið um alkóhólisma í fjölskyldu minni. Þegar ég var átján ára fór ég á fjölskyldunámskeið hjá SÁÁ og það gaf mér smá drifkraft. Einn eðlilegasti hlutur í heimi í umhverfi mínu var að byrja að drekka, „allir drukku“ og ég byrjaði um fermingaraldur.

Það var drukkið um helgar og svo fór það að verða meira og meira og stjórnleysi að taka yfir, sérstaklega eftir grunnskóla þegar ég var farin að vinna og bjó ein. Ég fann alveg að þetta var ekki í lagi og ég var farin að hugsa, það hlýtur að vera eitthvað meira í þessu lífi en þetta. Auk þess var þetta farið að verða það kostnaðarsamt að ég náði varla að standa undir því. Lífið var farið að fara niður á við og mig farið að hungra í að vita meira, finna einhvern tilgang. Ég fór ekki í meðferð, því ég sá ekki fyrir mér að ég gæti tekið mér frí til þess, kunni ekkert á þessar leiðir. Ég er mjög ábyrgðarfull og sá ekki leið til að borga reikningana mína á meðan ég væri í margra mánaða meðferð og vissi ekkert hvað ég átti að gera. Ég sagði við vinkonur mínar: „Ég á eftir að hætta að drekka, ég veit ekki hvernig eða hvenær en sá dagur mun koma.“

Fljótlega eftir þetta var mér boðið á leikrit í Hvítasunnukirkjunni Fíladelfíu í Hátúni, þetta var í febrúar árið 1999. Ég man að þennan dag leið mér hræðilega illa. Ég ætlaði eiginlega að hætta við að fara en fannst þetta samt spennandi og dreif mig. Mér fannst mjög sniðugt að verið væri að nýta húsið í eitthvað annað en messu, hafði ekki hugmynd um að þetta væri á vegum kirkjunnar. Leikritið snerist um lífið, hvernig okkur getur liðið og erfiðleikar leikið okkur grátt. Það var verið að sýna þunglyndi, kvíða, drykkju og bara hvernig hversdagsleikinn getur sligað okkur. Svo var sýnt hvernig allt breyttist þegar þessir einstaklingar tóku við Guði. Okkur var sagt hvernig Jesú hafði dáið fyrir syndir okkar og að hann gæti létt allar okkar byrðar. Hann gæti gefið okkur frið, betra líf og eilíft líf. Ég var eiginlega uppnumin. Hugsaði, ef þetta er satt þá vil ég þetta. Ég hafði haldið að Jesú væri bara ævintýri.

Þeim sem vildu var boðið að koma fram og taka þetta skref að taka við Guði. Ég þorði sko ekki og sat sem fastast í sætinu en hjartað í mér barðist og eitthvað innra með mér hrópaði: Ég vil þetta. En ég bara gat ekki gengið fram. Ég var svo meyr og gráti næst. En þarna fann ég að eitthvað gerðist. Lífið hjá mér breyttist og ég fann að ég vildi vita meira og upp frá þessu hætti ég að drekka og reykja. Mig langaði ekki lengur í bæinn að djamma og vinir mínir og vinkonur skildu ekkert í þessu. Þau reyndu að fá mig með og ég reyndi að taka þátt og fór meira að segja einu sinni niður í bæ og ætlaði að hitta þau á bar en ég keyrði tvisvar sinnum framhjá. Ég gat ekki farið inn. Ég var komin með ógeð á þessu. Það var kominn nýr andi. Nýtt líferni hafði tekið við af gömlu. Ég fór að sækja samkomur í Hvítasunnukirkjunni Fíladelfíu og það var tekið óskaplega vel á móti mér og ég er þar enn.“

Allir sem vilja styðja Natalie og senda henni uppörvun geta farið inn á: https://www.rmi.is/hlaupastyrkur/hlauparar/7691-natalie-terez-narvaez-antonsdottir

Við hjá Samhjálp erum óendanlega þakklát þessu frábæra fólki sem ætlar að styðja við starf okkar á þennan hátt. Það hvetur okkur einnig til dáða.