Skip to main content

Þórir Kjartansson og Natalie Narvaez Antonsdóttir

Þórir Kjartansson hefur ákveðið að hlaupa fyrir Samhjálp í Reykjavíkurmaraþoninu. Hann var ásamt konu sinni, Natalie T. Narváez Antonsdóttir, í áhrifamiklu forsíðuviðtali í páskablaði Samhjálparblaðsins. Þar kom fram að Þórir varð fyrir tæpum þremur árum fyrir alvarlegu vinnuslysi og um tíma ekki vitað hvort hann væri lamaður eða ekki. Eins þótti óvíst að hann næði fullri heilsu. Um þetta segir Þórir í viðtalinu:

„Ég féll niður um tvo og hálfan metra af stillans í Ráðhúsinu og var fluttur á gjörgæslu. Það var tvísýnt í byrjun hvort ég hefði lamast eða ekki því ég missti allan mátt í fótunum. Lá á gjörgæslu og gat ekki hreyft mig. Natalie og Sandra systir hennar komu upp á gjörgæslu og Natalie fékk rétt að hitta mig, ég gat ekki hreyft mig né talað við hana. Til mikillar blessunar fékk ég mátt í fæturna aftur daginn eftir, en mikið hafði verið beðið fyrir mér bæði hjá Samhjálp, í kirkjunum og á sjúkrahúsinu þar sem Natalie bað fyrir mér. Ég stóð bara upp daginn eftir. Ég hafði fengið svona rosalegt mænusjokk. Taugarnar höfðu lamast við sjokkið,“ sagði Þórir í viðtalinu.

Með fádæma dugnaði, atorku og samstöðu hafa hjónin náð að vinna sig frá erfiðleikunum. Auk þessa eiga þau hjónin að baki magnaða sögu og þeim tókst að leggja að baki myrkur og vanlíðan en hana má lesa í páskablaði Samhjálparblaðsins. En þið getið styrkt þau og lagt Samhjálp lið gegnum slóðina: https://www.rmi.is/hlaupastyrkur/godgerdamal/416-samhjalp+

Við þökkum Þórir þetta ómetanlega framtak og hér má nálgast viðtalið við þau í heild: https://samhjalp.is/wp-content/uploads/2023/03/Paskablad_2023_web-1.pdf