Skip to main content

Skötumessan verður haldin í Gerðaskóla í Garði miðvikudaginn 19. júlí næstkomandi. Að venju fá margir aðilar og stofnanir stuðning. Að þessu sinni verður helstu kröftum Skötumessunnar beint að Samhjálp. Fyrirhugað er að styrkurinn verði nýttur til endurbóta á elsta hluta húsnæðisins í Hlaðgerðarkoti sem standa nú yfir. Þessi frábæra messa byggir á tæplega tveggja áratuga langri hefð og á sér sögulega skírskotun. Ásmundur Friðriksson alþingsmaður  er frumkvöðull að Skötumessunni ásamt samstarfsfólki sínu

Skötumessan er ávallt haldin miðvikudegi í júlí eins nærri Þorláksmessu að sumri og hægt er að komast. Að þessu sinni verður hún daginn áður því Þorláksmessa er 20. júlí. Þorlákur helgi var tekin í dýrlingatölu árið 1198 og þótti gott að heita á hann ekki síður fyrir snauða en ríka. Í lifanda lífi var hann alþýðlegur og „lagði mikla stund á að elska fátæka menn“ eins og segir í Þorlákssögu. Ásmundur Friðriksson var bæjarstjóri í Garði þegar hann fékk hugmyndina að Skötumessunni. Allir þekkja þá hefð að borða kæsta skötu á Þorláksmessu að vetri en á sumrin er hún ekki algengur réttur á borðum Íslendinga. Hvernig kom það til að þú ákvaðst að halda messu af þessu tagi?

„Þetta vatt upp sig,“ segir Ásmundur. „Ég var byrjaður fyrr að halda litla veislu þar sem við komum saman nokkrir kunningjar til að styðja góðan vin sem var að ganga í gegnum erfiðleika. Þegar ég varð svo bæjarstjóri í Garði sprakk þetta út og varð 500 manna veisla á hverju ári. Þetta er mjög vinsælt og fólk mætir og skemmtir sér konunglega.“

En hvers vegna ákvaðst þú að bjóða upp á skötu? Þetta er ekki vinsæll réttur hjá öllum og sumir myndu kannski kjósa aðrar matartegundur umfram þegar þeir fara út að borða.

„Já, það er alveg rétt,“ segir Ásmundur kíminn. „Fáir elda skötu heima en finnst hún góð. Aðrir hafa gaman af að prófa hana en að mestu snýst þetta um velvilja. Við erum öll saman og allir gefa vinnu sína. Í lok kvölds eru styrkirnir svo afhentir og allir geta séð styrkþega taka við honum. Í byrjun vildu margir vita hvert peningarnir færu og við létum vita af því í Víkurfréttum en undanfarin ár hefur þessi háttur verið hafður á.“

Skötumessan fer fram í Miðgarði sal Gerðaskóla en Sveitarfélagið Garður hefur ævinlega lagt til húsnæði undir hana endurgjaldslaust. Markmið veislunnar er að styrkja þá sem á aðstoð þurfa að halda og fyrirtæki jafnan lagt til bæði hráefni og aðstoð. Á Skötumessu gefst gott tækifæri til að hitta vini og kunningja og mynda ný tengsl og rækta og styrkja sinn góða matarsmekk. Við hvetjum alla til að mæta og leggja Samhjálp lið við endurbætur í Hlaðgerðarkoti.

 

Skötumessan verður haldin miðvikudaginn 19. júlí kl. 19 í Garði. Forsala aðgöngumiða er hafin og miðinn kostar 6000 kr. Aðgangseyririnn lagður inn á reikning Skötuveislunnar, 0142-05-70506, kt. 580711-0650. Gestir prenta síðan út kvittun fyrir innlegginu og það gildir sem aðgöngumiði.