Skip to main content

Á síðasta aðalfundi Samhjálpar tók Dóra Vigdís Vigfúsdóttir sæti í stjórn samtakanna. Dóra hefur margháttaða innsýn í starf Samhjálpar vegna menntunar sinnar og hefur lengi haft áhuga á að leggja sitt af mörkum til að aðstoða samtökin. Það telst ævinlega til tíðinda þegar nýir og öflugir liðsmenn bætast í hópinn og okkur lék forvitni á að kynnast Dóru Vigdísi aðeins betur.

Hver er Dóra Vigdís Vigfúsdóttir í stuttu máli?

„Ég er eiginkona og móðir og við maðurinn minn eigum fimm börn. Ég starfa sem hjúkrunarfræðingur á Barna- og unglingageðdeild Landspítalans og hef unnið þar í fimm ár. Þar á undan hef ég unnið á gjörgæslu- og svæfingadeild Landspítalans. Einnig er ég lærður handleiðari og áfengis- og vímuefnaráðgjafi,“ segir Dóra Vigdís.

Hvers vegna varstu tilbúin að gefa kost á þér til stjórnarsetu í Samhjálp? 

„Ég hef fylgst með starfi Samhjálpar í gegnum tíðina og finnst frábært það viðamikla starf sem þar fer fram. Ég hef lengi haft löngun til að taka þátt í starfi á þessum vettvangi og koma að meðferðarstarfi á einhvern hátt. Ég hef verið að handleiða einstaklinga sem starfa innan meðferðargeirans.“

Áttu þér ósk eða markmið sem þú vilt ná fram með samtökunum meðan þú situr í stjórn? 

„Fyrst og fremst vonast ég eftir því að þekking mín og reynsla komi að gagni. Ég veit að það er mjög mikil þekking og reynsla hjá þeim sem ég mun starfa með og hlakka til að vinna að því að efla enn frekar það starf sem fer þar fram,“ segir hún.

Lífið er hins vegar ekki bara vinna og allir þurfa að finna hið gullna jafnvægi milli vinnu og ánægju. Áttu þér einhver áhugamál?

„Já, mér finnst gaman að ferðast, fara á skíði, vera út í náttúrunni og ganga upp á fjöll, hjóla og margt fleira.“

Kvikna einhverjar hugleiðingar nú í upphafi starfs þíns?

Hlakka til að kynnast starfsemi Samhjálpar betur og vona sannarlega að ég geti orðið að liði,“ segir Dóra Vigdís að lokum en starfsmenn og stjórn Samhjálpar fagna því að hafa fengið svo öflugan liðsmann og hlakka til samstarfsins.