Reglulega koma góðir gestir færandi hendi á skrifstofu Samhjálpar. Einn slíkur hópur leit við í morgun og gladdi okkur ósegjanlega. Tveir félagar úr Soroptimista-klúbbi Árbæjar, Guðrún Helga Bjarnadóttir og Sigrún Arnardóttir komu með fullt bílskott af garni, heklunálum, prjónum teikniblokkum og penslum til að gleðja handlagnar konur í Hlaðgerðarkoti.
Í vetur birtist viðtal við Kristbjörgu Steinunni Gísladóttur ráðgjafa á Hlaðgerðarkoti á heimasíðu Samhjálpar þar sem óskað var eftir garni, prjónum og öðru er nýst gæti prjónahópi sem starfað hefur á meðferðarheimilinu í vetur. Margir svöruðu kallinu og færðu okkur garn en að frumkvæði Guðrúnar Helgu Bjarnadóttur ákvað Soroptimista-klúbbur Árbæjar að hefja söfnun. Þegar vinir og samstarfsmenn Guðrúnar Helgu fréttu af þessu vildi þeir líka leggja eitthvað til. Guðrún Helga starfar hjá Barnaheill og fólk þar á bæ ekki ókunnugt góðum verkum eða þeirri þörf sem getur skapast fyrir efnivið í nytjahluti. Söfnunin gekk framar vonum fólk vildi einnig leggja til teikniblokkir, pensla og liti handa þeim sem hafa gaman af að mála. Þær Guðrún Helga og Sigrún tóku síðan að sér að koma afrakstri söfnunarinnar á skrifstofu Samhjálpar og þær færðu okkur efni í margar peysur, trefla, húfur og teppi og að auki nægt efni til að gleðja skapandi listamenn. Heimilisfólk á Hlaðgerðarkoti getur því virkjað sköpunargáfuna og fljótlega munu áreiðanlega verða til fallegir og nýtilegir munir.