Skip to main content

Menn sameinast um að lifa í samfélögum í þeim tilgangi að styðja hvern annan og finna hagkvæmar leiðir til að sinna öllum þörfum borgaranna í hverju ríki. Til þess að það gangi upp greiða allir hluta launa sinna í sameiginlega sjóði og árlega skila þeir skýrslu um tekjur sínar, eignir og útgjöld og staðfesta að það hafi þeir gert samviskusamlega. Stundum verður misbrestur á greiðslum og eða skattaskýrslugerð og þá getur málið vandast. Allir vilja gjalda keisaranum það sem keisarans er og vera fullgildir meðlimir samfélagsins svo við skoðuðum hvað þarf til að koma hlutunum í lag ef misbrestur hefur orðið á þessum skyldum.

Fyrst af öllu er áhugavert að velta fyrir sér hvað gerist ef fólk hefur vanrækt að skila skattaskýrslu um árabil?

Greiði einstaklingur ekki skatta fer hann á vanskilaskrá og því geta fylgt margvísleg óþægindi. Vanskilaskrá hefur að geyma upplýsingar um vangreiddar skuldir einstaklinga og innheimtuaðgerðir. Þegar bankar eða önnur fjármálafyrirtæki meta nýja umsækjendur um reikningsviðskipti er gjarnan kannað hvort viðkomandi sé á vanskilaskrá. Aðilar sem eru á vanskilaskrá fá ekki reiknað lánshæfismat. Atvinnurekendur kanna einnig stundum hvort umsækjendur um vinnu séu á vanskilaskrá einkum ef starfið felst í umsýslu fjár.

Semji einstaklingur ekki um greiðslu skulda sinna er viðbúið að fjárnám verði reynt.

Fjárnám er aðgerð sem sýslumaður framkvæmir að beiðni kröfuhafa og felur í sér að taka veð í eignum skuldara, ef þeim er að dreifa, til tryggingar greiðslu krafna á hendur honum.

Fjárnám og aðfararheimildir

Kröfuhafi getur krafist fjárnáms hjá skuldara ef fyrir liggur svokölluð aðfararheimild, sem er heimild til að innheimta skuld með fjárnámi. Aðfararheimildir eru til dæmis dómar og úrskurðir dómstóla eða kröfur um skatta og önnur gjöld sem innheimt eru samkvæmt lögum af innheimtumönnum ríkissjóðs. Í sumum tilvikum hægt að krefjast fjárnáms án þess að á undan fari málsmeðferð fyrir dómstólum, til dæmis í tilvikum lögtakskrafna og skuldabréfa.

Svokölluðu aðfarargjaldi er bætt við kröfuna og það greitt í ríkissjóð. Þegar aðfararheimild liggur fyrir er hún send til sýslumanns sem boðar kröfuhafa og skuldara til fyrirtöku á skrifstofu sinni þar sem beiðni um fjárnám er tekin fyrir. Skuldarinn er boðaður til fundarins með bréfi sem birt er af stefnuvotti eða sent með ábyrgðarpósti. Framhald málsins fer svo eftir því hvort skuldarinn mætir á fundinn eða sendir staðgengil sinn. Oftast nær er hægt að semja um greiðslur og fá aðstoð við að setja upp greiðsláætlun. Það frestar öllum frekari innheimtuaðgerðum. Það hvort eða hvernig fjárnámið fer fram ræðst af því hvort samningar takast.

Gerðu eitthvað!

Aldrei gera ekki neitt er orðtak á slæmri íslensku en merkinguna skilja allir. Það er rétt að aldrei borgar sig að gera ekki neitt en hver eru fyrstu skrefin ef einhver vill gera bragarbót og koma sínum málum á hreint?

Það fyrsta er að skila inn framtölum til að fá rétta álagningu ef það er ekki gert er áætlað á viðkomandi og sú áætlun er yfirleitt alltaf hærri en rétt álagning samkvæmt framtali, það er hægt að fara á skrifstofur tollstjóra í Katrínartúni 6 í afgreiðslu og fá leiðbeiningar um hvernig á að skila inn framtali og hvaða gögn þurfa að fylgja. Skattframtal er staðfesting á öllum þeim tekjum, eignum og skuldum sem einstaklingur átti á skattárinu sem leið. Réttar upplýsingar þurfa að berast skattstjóra svo hægt sé að reikna út skatta og bætur. Skattframtali er hægt að skila rafrænt bæði á skattur.is og með skeytasendingum úr framtalsforriti sem notað er af endurskoðendum, bókurum og öðrum þeim sem atvinnu hafa af framtalsgerð. Ef framtali er ekki skilað hefur skattstjóri ekki upplýsingar til að reikna út rétta skatta. Skattar eru því lagðir á samkvæmt áætluðum tekjum og eignum. Ef framtali er ekki skilað á réttum tíma og ekki hefur verið sótt um frest þá hefur skattstjóri heimild til að beita álagi, sem verður til þess að skattgreiðslur hækka.

Tölur og gagnaúrvinnsla liggja misjafnlega fyrir fólki og sumir forðast í lengstu lög að takast á við margra ára vanrækslu þess vegna en er veitt aðstoð við slíka vinnu?

Orator veitir árlega aðstoð við skattframtalsgerð rétt fyrir þann tíma sem skylt er að skila framtölum. Ef ekki reynist nægur tími þá til að gera upp allt sem á vantar er hægt að leita til starfsmanna tollstjóra og fá leiðbeiningar. Endurskoðendur og bókarar veita einnig framtalsaðstoð. Í flestum fjölskyldum eru líka snjallir einstaklingar sem oft er tilbúnir að hjálpa.

Hvað þarftu að hafa?

Hver eru svo helstu gögn sem viðkomandi þyrfti að safna saman og skila með framtölunum sínum? Launaseðlar ef þá vantar, afsöl og önnur gögn varðandi eignir, kvittanir fyrir kostnaði og öðru sem er frádráttarbært.

Ef viðkomandi skuldar skatta, hvert getur hann snúið sér til að semja um greiðslur skuldarinnar eða er ekki mögulegt að gera það? Þjónustufulltrúar hjálpa viðkomandi ef hann vill semja um sín mál, hægt er að senda tölvupóst á vanskil@skatturinn.is, hringja í 442 1055 eða komið við í Katrínartúni 6, ef þetta eru gömul gjöld þá gætu þau verið fyrnd. Þar yrði það skoðað og fyrnd gjöld sett í afskrift.

Ef fólk hefur ekki haft góða yfirsýn yfir fjármál sín um árabil þarf einhvers staðar að byrja. Við ráðleggjum öllum að skila inn framtali sem fyrst. Það er hagur allra að greiða skattskuldir sínar, sem og aðrar skuldir sem fyrst. Inniheimtuaðgerðir eru kostnaðarsamar, dráttarvextir leggjast einnig ofan á kröfuna og þeir eru fljótir að vaxa. Kostnaður vegna innheimtu er óafturkræfur og ber skuldari þann kostnað jafnvel þó um innheimtu áætlaðra skatta og gjalda sé að ræða. Tollstjórinn í Reykjavík hefur einnig heimild til að gera kröfu í laun einstaklinga til greiðslu vangoldinna opinberra gjalda og það getur verið erfitt að byrja nýtt líf ef öll launin fara beint í skuldir. Til að forðast það þarf að gera upp fortíðina og semja um það sem eftir stendur þegar öllum framtölum hefur verið skilað og álagning gerð upp.