Skip to main content

Bessel van der Valk

Líkaminn geymir allt, er stórmerkileg bók um hvernig áföll breyta lífeðlisfræði líkamans og þótt flestir jafni sig eftir að hafa upplifað eitthvað slæmt, geta síendurtekin og alvarleg áföll orðið til þess að fólk þróar með sér áfallastreituröskun en það ástand er ekki síður líkamlegt en andlegt og heftir fólk á margvíslegan máta.

Í byrjun bókarinnar má segja að Bessel van der Kolk fari á handahlaupum gegnum sögu geðlæknisfræðinnar allt frá Freud til vísindarannsókna vorra daga. Hann tengir allar uppgötvanir vísindamanna á starfsemi heilans og hlutverki taugaboðefna við sögur fólks sem glímir við andlegar áskoranir og útskýrir hvers vegna sumum gengur verr en öðrum að lifa lífinu, höndla hamingju, mynda tengsl og skapa sér tilgang. Vanlíðan rekur marga út í vímuefnavanda, ofneyslu matar, áhættusækni eða skapar hvatvísi og dómgreindarleysi. Hingað til höfum við álasað mörgu þessu fólki fyrir skort á sjálfsstjórn, sjálfsbjargarviðleitni, góðmennsku og dugnaði en allt bendir til að flókið samspil heilastöðva og hormóna geri það einfaldlega að verkum að fólk með áfallastreitu hafi ekki aðgang að þeim úrræðum skynseminnar sem þarf til að breyta lífi sínu á uppbyggilegan hátt vegna boðefnabrenglunar í líkamanum.

„Er það nokkuð skrítið að einstaklingar með áfallastreitu þoli illa að endurupplifa sársaukann og grípi til áfengis, vímuefna eða sjálfsskaða til að halda þessum óbærilegu upplifunum frá sér?“ (Líkaminn geymir allt bls. 21)

Fólk hafnar líkama sínum og sjálfu sér

Það er hrein upplifun að lesa þessa bók. Erfitt en óskaplega fróðlegt og lesandanum opnast alveg ný sýn á svo ótal mörg vandamál mannlegrar tilveru og á viðbrögð sjálfs sín í ýmsum aðstæðum. Bessel útskýrir mjög vel og á mannamáli hvað gerist í líkamanum við áföll og þegar áfallastreituröskun hefur myndast. Hann segir einnig frá umdeildum rannsóknum og meðferðaraðferðum.

„Í köflunum um líffræði áfalla sáum við hvernig áföll, og það að vera hafnað, aftengir fólk líkama sínum sem uppsprettu unaðar og þæginda og jafnvel þeim hluta sem þarf að hlúa að og annast. Þegar við getum ekki treyst á að líkaminn gefi merki um öryggi eða hættu, en erum þess í stað föst í sama yfirþyrmandi ástandi líkamlegra óþæginda missum við getuna til að líða vel í eigin skinni, og í stærra samhengi, að líða vel í veröldinni.“ (Líkaminn geymir allt)

Hann útskýrir einnig vel hvernig síendurtekin áföll og áfallastreita aftengja okkur ákveðnum heilastöðvum svo fólk hefur ekki fullan aðgang að sköpunarkrafti sínum, dómgreind og lausnamiðaðri hugsun. Máli sínu til stuðnings segir hann frá andstyggilegri rannsókn gerðri á hundum í búrum. Sumir þeirra fengu síendurtekið raflost, að tilefnislausu og án nokkurs mynsturs. Þegar búrin voru svo opnuð gerðist þetta:

„Hópur hunda sem ekki hafði fengið raflost áður hljóp samstundis í burtu en hundarnir sem höfðu áður þurft að þola hin óumflýjanlegu raflost gerðu enga tilraun til að flýja, jafnvel þótt búrið stæði galopið – þeir lágu bara í búrinu kjökrandi og skítandi. Dýr í áfalli stökkva ekki endilega út í frelsið, ekki frekar en fólk. Líkt og hundar Mairers og Seligmans gefst margt fólk í áfalli einfaldlega upp.“ (Líkaminn geymir allt, bls. 42)

Þessi viðbrögð þessara skynsömu og tilfinningaríku dýra skýra hvers vegna fólk snýr aftur heim þrátt fyrir að vera þar beitt ofbeldi og hvers vegna börn geta elskað ofbeldisfulla foreldra. Stundum er það víti sem þeir þekkja öruggara en óvissan því heilinn megnar ekki lengur að leiða manneskjuna á nýja vegu.

„Lyf, vímuefni og áfengi geta einnig dregið tímabundið úr eða eytt óbærilegum skynjunum og tilfinningum. En líkaminn heldur áfram að geyma allt.“ (Líkaminn geymir allt, bls. 63)

Tengsl áfalla og vímuefnafíknar

„Um einn þriðji til helmingur fólks með alvarlega áfallastreitu þróar með sér vímuefnafíkn. Allt frá timum Hómers hafa hermenn notað áfengi til að deyfa sársauka sinn, gremju og þunglyndi. Í nýlegri rannsókn hafði helmingur þeirra sem lent höfðu í umferðarslysum þróað með sér áfengis- eða vímuefnavanda. Misnotkun áfengis gerir fólk kærulaust og með því aukast líkur á endurteknum áföllum (þótt það minnki líkur á þróun áfallastreitueröskunar ef einstaklingurinn er þegar vímaður þegar ráðist er á hann).

Áfallastreituröskun og vímuefnamisnotkun tengjast náið og hafa áhrif hvort á annað: Á meðan áfengi og vímuefni geta kallað fram tímabundinn létti frá einkennum áfalla auka fráhvörfin oförvun og magna þar með upp martraðir, endurlit og pirring.“ (Líkaminn gleymir engu, bls. 405).

Áföll eru fjölbreytt og geta stafað af margvíslegum orsökum, allt frá slysum og náttúruhamförum til langvarandi ofbeldis og vanrækslu. Nú og svo eru auðvitað hrikalegar og eyðandi afleiðingar stríðsátaka. Menn þróa með sér áfallastreitu í kjölfar slíkra upplifana og geta verið alla ævi að glíma við endurlit, martraðir, félagslega einangrun, ofsóknarkennd, vanmáttartilfinningu og ofsaköst. Bessel van der Valk hefur áratuga reynslu í að veita skjólstæðingum sínum meðferð við áfallastreituröskun og rekur mörg dæmi í bókinni til að skýra bæði afleiðingar áfalla, einkenni sem fólk sýnir og leiðir til bata. Margt nýtt hefur komið fram og er að þróast meðfram auknum rannsóknum á heilastarfseminni. Sumt er enn umdeilt en annað gefur góðar vonir um að hægt sé að vinna með og yfirstíga áfallastreituröskun.

„Mörgum sem þjást af áfallastreitu finnst eins og þeir séu alltaf úr takti við umhverfi sitt og alla í kringum sig.“ (Líkaminn geymir allt, bls. 99)

Afleiðingar áfalla eru ekki eingöngu andlegar og tilfinningalegar heldur tauga- og lífeðlisfræðilegar líka. Við áföll verða breytingar í heilanum sem leiða til þess að líkaminn er stöðugt í streituviðbragði eða doða og leiðir til margvíslegra líkamlegra vandamála. Þolendum ofbeldis og áfalla finnst oft að ástandið taki engan enda. Þeir upplifa það aftur og aftur og við hvert endurlit lokast hluti heilans meðan aðrar stöðvar hans verða ofvirkar. Menn missa tengslin við eigið sjálf og þegar áfallastreituröskun er á háu stigi þekkir fólk jafnvel ekki sjálft sig í spegli. En margt óvænt og einfalt getur komið þeim til bjargar, jóga, hugleiðsla, að syngja í kór, EMDR-meðferð þar sem meðferðaraðili vinnur með augnhreyfingar og taugaendurgjöf sem er ný leið sem verið er að þróa en þar er unnið með heilabylgjur með aðstoð tækninnar og svo gefur þátttaka í leiklistarstarfi góða raun því þar getur fólk fundið innra með sér og þróað persónur, gerólíkar þeim sjálfum og fá þannig tækifæri til að vera sjálfsöruggari, duglegri og áræðnari en það hefur sýnt sig að slíkt skilar sér áfram út í þeirra eigin tilveru þegar leiklistarstarfinu lýkur. Þau Hugrún Hrönn Kristjánssdóttir og Arnþór Jónsson eiga þakkir skildar fyrir að þýða þessa bók en við lestur hennar eykst bæði skilningur á viðbrögðum fólks í vanda sem og þekking á eigin sjálfi.