Skip to main content

Sigrún Óskarsdóttir fangaprestur þjóðkirkjunnar

Sigrún M. Óskarsdóttir, fangaprestur Þjóðkirkjunnar, fór í guðfræði vegna þess að hún taldi það vera gott alhliða nám en fann sterka köllun og lítur á starf sitt sem algjör forréttindi. Hún hefur kynnst starfi Samhjálpar frá nokkrum hliðum og tók meðal annars þátt í kvennastarfinu Dorkas, sem hafði mikil áhrif á hana.

Hvernig stóð á því að ungur guðfræðinemi fór á samkomur hjá Fíladelfíukirkjunni og hóf að vinna með kvennahópi innan Hvítasunnusafnaðarins?

„Samhjálp á alltaf stórt pláss í hjarta mínu,“ segir hún. „Ég kem sveitastelpa ofan af Laugavatni árið 1985 til að hefja nám í guðfræði í Háskólanum. Ég vissi ekki hvað ég vildi og fannst námið fjölbreytt og spennandi. Þá var ekki alveg eins mikið í boði að fara í heimsreisu meðan maður hugsaði sig um, svo að mín heimsreisa varð guðfræðin. Þar kynntist ég Gunnbjörgu Óladóttur, en hún og fjölskylda hennar störfuðu hjá Samhjálp. Þegar við höfðum kynnst betur bauð hún mér á samkomur og mér fannst þetta ótrúlega spennandi, framandi og gerólíkt því sem ég hafði alist upp við. Stundum hef ég sagt að ég hafi farið í guðfræði því það vantaði svo mikið í þennan þátt. Á Laugarvatni var engin kirkja í minni æsku, messur voru haldnar í barnaskólanum á stórhátíðum og svo fermdist ég í Skálholti. En allt trúarlíf var mjög hefðbundið og gamaldags. Í sveitinni var kirkjukór og bóndi úr sveitinni, hann Andrés á Hjálmsstöðum, var organisti. Þetta hafði vissulega sinn sjarma og var held ég nokkuð hefðbundin íslensk trúarupplifun. Á samkomunum var hins vegar mikið fjör, trommur, bassi og gítar og fólk söng af hjartans lyst.

„Þetta var svo hlýtt, notalegt og fallegt samfélag. Í hópnum voru alls konar konur. Konur sem störfuðu hjá Samhjálp, konur sem sóttu samkomurnar, konur úr Hvítasunnusöfnuðinum og konur sem höfðu farið í gegnum ótalmargt og glímt við fíkn.“

Í framhaldi af því að ég fór á samkomur buðu Gunnbjörg og Ásta Jónsdóttir mamma hennar mér að koma á Dorkas-fund. Þeir voru haldnir einu sinni í mánuði og það sem ég upplifði þar hafði djúp áhrif á mig. Þetta var svo hlýtt, notalegt og fallegt samfélag. Í hópnum voru alls konar konur. Konur sem störfuðu hjá Samhjálp, konur sem sóttu samkomurnar, konur úr Hvítasunnusöfnuðinum og konur sem höfðu farið í gegnum ótalmargt og glímt við fíkn. Ásta var líka eins og mamma okkar allra sem tókum þátt í þessu starfi, ráðagóð og hlý. Þarna voru konur sem höfðu verið í fangelsi, verið heimilislausar og lent í miklum hremmingum. Þær gáfu svo mikið af sér. Það eru þessar sigursögur sem hvetja mig áfram í starfi. Það er svo mikilvægt að missa aldrei sjónar á því að við megum aldrei gefast upp á nokkurri manneskju.

Við lásum saman upp úr Biblíunni og svo voru vitnisburðir og fyrirbænir. Ég segi alveg fullum fetum að þarna lærði ég fyrst að biðja upphátt með öðrum. Margt gott og gagnlegt lærði ég í guðfræðinni sem mér þykir ákaflega vænt um en að biðja upphátt fyrir öðrum lærði ég í Samhjálp. Það hefur reynst mér ákaflega vel í öllu mínu starfi. Ég fann að þetta var ekki neitt yfirnáttúrulegt eða skrýtið heldur bara opið samtal við Guð, að biðja fyrir öðrum og fá fyrirbænir. Það hefur borið mig í gegnum starfið alla tíð.“