Skip to main content

Bókina Sigurinn liggur í uppgjöfinni er hægt að fá í flestum bókabúðum, en blaðamanni finnst hún er einkar vel skrifuð og áhugaverð. Hún veitir innsýn í sporavinnuna og hvað felst í hverju og einu þeirra. Að gefast upp fyrir eigin vanda, láta af stjórn og leggja ráð sitt í hendur æðri máttar, takast á við sjálfan sig og eigin skapgerðarbresti og svo leitin að fyrirgefningu. Þetta er vinna sem þarf að stunda af heiðarleika og auðmýkt og læra að skynja þakklæti. Þá þætti hafa allir gott af að læra og tileinka sér.

Í inngangi að niðurstöðukaflanum tala höfundar um eftirfarandi fimm þemu, sem snúa beint að sporavinnunni: Uppgjöf, Æðri máttur, Hreinskilni, Skapgerðarbrestir og Fyrirgefning. Síðan er fjallað um hvert og eitt þema og vitnað í viðmælendur. Hér á eftir fara tilvitnanir úr bókinni sem eru lýsandi fyrir hvert og eitt þema. Önnur tvö þemu voru tiltekin, en þau sneru að líðan fólks og úrvinnslu.

„Það var mjög erfitt að skilja þetta, að gera mér grein fyrir því að ég væri sigraður, ég réði ekki við fíkniefni og áfengi, það tók smátíma.“ (Sigurinn liggur í uppgjöfinni, bls. 25)

Viðmælendur tala einnig um hversu erfitt hafi verið að þiggja ráðgjöf og fara eftir því sem þeim var sagt en um leið og þeir fóru að gera það færðist sigurinn nær. Í því samhengi er bent á að vandinn felist í hugsanamynstri og atferli þess sem glímir við fíkn en ekki ytri aðstæðum.

Einhver kraftur æðri okkur 

„Menn eru alltaf að pæla í hver er Guð, hvernig er Guð, ég segi bara, það skiptir ekki máli, gleymdu því, farðu bara með þessar bænir og pældu ekkert í af hverju. Þetta er bara einhver kraftur sem er æðri okkur.“

„Ég afneitaði aldrei Guði og hef sérstaklega stuðst við trúna síðustu árin, mér finnst trúin vera algerlega grunnatriði.“

(Sigurinn liggur í uppgjöfinni, bls. 35)

Hreinskilni 

„Ég tók spurningalista með 134 spurningum um æsku mína, unglingsár og fleira. Ég skrifaði margar síður um þetta. Það var gríðarlega öflugt fyrir mig. Það varð alger breyting á minni líðan eftir þetta. Við ræddum muninn á að sættast og fyrirgefa, ræddum ofbeldi og allt mögulegt. (Sigurinn liggur í uppgjöfinni, bls. 47–48)

Skapgerðarbrestir 

„Ég gaf mér tíma til að hugsa, hvað er það sem ég vil að Guð taki frá mér. Hvað er ég að fara að biðja um hérna. Ég fór svolítið yfir það í huganum. Ég held að ég hafi verið að ná mér í svolitla fjarlægð frá sjálfri mér.“

(Sigurinn liggur í uppgjöfinni, Skapgerðarbrestir, bls. 53–54)

Fyrirgefning 

„Þetta var dálítið erfitt, erfiðastur var kvíðinn fyrir því að gera þetta, svo gekk það vel og var bara gott, yfirleitt var alltaf tekið vel á móti mér.“

(Sigurinn liggur í uppgjöfinni, bls. 63)

Þarna er verið að fjalla um níunda sporið að leita fyrirgefningar og leitast við að bæta fyrir brot sín.

Hvað hafði breyst?

„Ég var bara lifandi lík og gerði mér engan veginn grein fyrir því. Mér fannst skelfilegt að hugsa til þess að vera ódrukkin.

(Sigurinn liggur í uppgjöfinni, bls. 75)

Ráðleggingar til nýliða 

„Að vera heiðarlegur. Þú lýgur ekki að Guði en þú getur logið að sjálfum þér.“

(Sigurinn liggur í uppgjöfinni, bls. 95)