Í viðtali við Sigurlínu Davíðsdóttur um rannsókn hennar og Ragnars Aðalsteinssonar á hvað virkaði best til að ná og viðhalda bata frá fíknisjúkdómi kom margt áhugavert fram m.a. hversu hve afgerandi niðurstöður þeirra voru og að fann sinn æðri mátt hvert á sinn hátt.
Þið Ragnar Ingi hafið unnið lengi innan meðferðargeirans og þekkið tólf spora kerfið af eigin raun. Var eitthvað sem kom þér á óvart þegar þú fórst að vinna úr gögnunum?
„Tvennt kom mér aðallega á óvart,“ segir hún. „Í fyrsta lagi hvað niðurstöðurnar voru afgerandi. Hvað það var mikill samhljómur í svörunum. Þetta var alls konar fólk, ólíkt hvað varðaði kynferði, atvinnu, þjóðfélagsstöðu, já, bara alls konar manneskjur. Það kom mér algjörlega í opna skjöldu hvað niðurstöðurnar voru samt sláandi líkar. Ég var að reyna að hafa ekki áhrif á þetta og spyrja eins opið og hægt var en svörin voru svona. Annað sem kom mér á óvart var hversu mikla hugkvæmni fólk sýndi í að finna sér æðri mátt þegar það gat ekki sætt sig við æðri mátt kirkjunnar. Mér fannst það algjörlega yndislegt. Fólk áttaði sig á því að það er ekki hægt að stytta sér leið framhjá þessu spori. En af því að það gat ekki hugsað sér að fara þessa hefðbundnu leið fann það sér alls konar króka að ásættanlegri niðurstöðu. Ég átti líka von á að það yrði miklu meira mál að greina þetta og finna heildarmynd, en niðurstöðurnar lágu bara gjörsamlega á borðinu.“
Nú er semsé bókin komin, Sigurinn liggur í uppgjöfinni – Allt hálfkák reyndist okkur gagnslaust – og hún kom fyrst fyrir almenningssjónir í áttræðisafmælinu þínu. Hafið þið fengið einhver viðbrögð, þá bæði frá fræðasamfélaginu og þeim sem eru í tólf spora vinnunni úti í samfélaginu?
„Við höfum fengið mikil viðbrögð frá þeim sem hafa lesið bókina,“ segir Sigurlína. „Þau eru öll afskaplega jákvæð og fólk tekur henni almennt vel. Þau sem hafa tjáð sig um hana í fræðasamfélaginu eru líka jákvæð. Ég var svolítið hikandi við að setja þetta svona fram því það er mjög óhefðbundin framsetning innan fræðanna að byggja bókina aðallega upp á röddum viðmælendanna. En fólki finnst það alveg hæfa efninu og ég hef ekki fengið nein neikvæð viðbrögð vegna þess.“
Langar í frekari rannsóknir
Sigurlína er prófessor emeritus í uppeldis- og menntunarfræðum við Háskóla Íslands, en Ragnar var lengst af kennari í grunnskóla og var síðan aðjúnkt við menntavísindasvið Háskóla Íslands. Hann er jafnframt kunnur af ritstörfum og hefur gefið út námsbækur, ljóðabækur, endurminningabækur, þýðingar og ýmis ritverk almenns eðlis. Þau hjónin eru meðal stofnenda Krýsuvíkursamtakanna. Bæði eru komin á eftirlaunaaldur eins það heitir en greinilega fjarri því að setjast í helgan stein. „Hafið þið hugsað ykkur að halda áfram þessari rannsóknarvinnu?“
„Við höfum verið að velta þessu fyrir okkur,“ segir Sigurlína. „Núna leituðum við að viðmælendum innan AA-samtakanna og þar er hópur fólks sem hefur náð þessu. En ég get ekki útilokað að þarna úti sé hópur fólks sem hefur náð sama árangri án þess að vera í AA-samtökunum og við höfum verið að láta okkur dreyma um að elta það uppi. Það er bara svo erfitt að finna þá einstaklinga, ólíkt því hvað það er auðvelt að ganga að fólkinu í samtökunum. Það væri rosalega gaman að vita hvernig þeir fara að sem ekki eru í AA-samtökunum og hvernig þeim líður að öðru leyti. Við spurðum viðmælendur okkar meðal annars að því hvað hefði breyst hjá þeim og hvernig þeim liði. Þar var líka algjör samhljómur. Allt annað líf og miklu betri líðan að öllu leyti, andlega og líkamlega og betri virkni félagslega, fjárhagslega og hvað eina. Það væri fróðlegt að vita hvort það er sambærilegt hjá þeim sem ekki hafa farið þessa leið til bata. Ég veit hins vegar ekki alveg hvernig maður myndi snúa sér að því að fá það fólk í viðtöl.“
Nú hafa tólf sporin líka verið notuð í annars konar vinnu, m.a. til að aðstoða fólk við að ná sér eftir áföll, eins og til dæmis skilnað. Hefur þú eitthvað skoðað eða myndað þér skoðun á því hvernig þetta kerfi nýtist í slíkri vinnu?
„Það væri mjög gaman einmitt að skoða það. Við töluðum bara við fólk sem glímir við fíkn, til þess að eitthvað annað væri ekki að veltast inn í. Vissulega er spurning hvernig það yfirfærist á önnur úrtök og mín ágiskun er að niðurstöðurnar geri það, en það væri áhugavert að vita það. Nefna má að það er heil atvinnugrein sem hefur skapast í kringum matarfíkn og skurðaðgerðir þróaðar til að takast á við þann sjúkdóm en svo er hægt að fara sporaleiðina líka til að ná tökum á því. Það væri athyglisvert að tala við það fólk líka og þá einstaklinga sem hafa farið mismunandi leiðir og athuga hvernig þeim gengur og gera samanburð á því hvernig þeim líður. Þar erum við með skilgreindan hóp sem hefur valið mjög fjölbreyttar leiðir og því er auðvelt að sjá mismuninn,“ segir Sigurlína að lokum.