Skip to main content

Díana Ósk Óskarsdóttir

Díana Ósk Óskarsdóttir var ellefu ára á götunni í Reykjavík. Hún segir merkilega sögu sína í páskablaði Samhjálpar:

Hún er merkilega yfirveguð þegar hún talar um þennan tíma en gatan í Reykjavík er varla æskilegur staður fyrir ellefu ára barn. Reyndi aldrei neinn að hlutast til um þín mál eða koma þér til bjargar?

„Ég byrjaði líka í neyslu þegar ég kom til Reykjavíkur,“ segir hún. „Í reiði minni þegar ég var tíu ára byrjaði ég að sniffa og fikta við að reykja en þarna var ég komin í daglega neyslu. Ég var tekin af lögreglunni og því sem kallað var útideildin. Það var fyrirbæri sem félagsþjónustan rak til að fylgjast með unglingum sem voru að þvælast niðri í bæ. Þau höfðu afskipti af mér og ég var sett nokkrum sinnum inn á Neyðarathvarf fyrir unglinga sem var á Kópavogsbraut 9. Ég man eftir fyrsta skipti sem ég vaknaði þar inni. Ég vissi ekkert hvar ég var, ég hafði verið svo út úr heiminum. Ég fann ristabrauðslykt og heyrði einhvern humma eitthvert lag með sjálfum sér. Ég leit í kringum mig og hugsaði: guð minn góður, hvar er ég eiginlega? Hélt ég hefði lent í einhverju partíi en gekk fram og þar stóð maður og var að skera graflax niður á ristað brauð. Hann var svo hlýr og notalegur og það geislaði af honum. Ég var hins vegar skíthrædd og spurði hvert ég væri komin. Hann sagði mér hvar ég væri og bauð mér morgunmat.

Ég settist niður með honum og við áttum saman góða stund en smátt og smátt rann upp fyrir mér að ég var læst inni. Mér leist ekki á það, kláraði morgunmatinn og fór inn í herbergi og ætlaði að brjóta rúðuna og fara út. Það reyndist hins vegar ekki hægt og ég hugsaði, vá þetta er alvöru fangelsi. En þarna byrjaði ég þá göngu að vera reglulega sett inn á Neyðarathvarfið og seinna inn á Unglingaheimili Reykjavíkur sem þá var við Kópavogsbraut 17. Kerfið var eitthvað að reyna að eiga við mig en það gekk ekki vel; þeir réðu ekkert við mig. Ég var stöðugt í uppreisn, fékk aðra í lið með mér og reglulega voru tekin af okkur eiturlyf. Ég var næst sett á heimavistarskóla á Reykjum í Hrútafirði, hafði í raun hætt í skóla ellefu ára en var þarna komin um fermingu. Það var eitthvert nám á unglingaheimilinu en ég sinnti því ekki neitt og fékkst ekki til að læra neitt þarna heldur. Ég var alltaf upp á kant við kennarana og þeir ráku mig á endanum. Þar með var ég komin á götuna aftur og kerfið hætt að skipta sér af mér. Ég varð bara að sjá um mig sjálf og hef gert það síðan.“

Þráði venjulegt líf 

Eiginlega er ekki hægt annað en verða reiður við tilhugsunina um svo ungan krakka í þessum aðstæðum. Manni finnst að það hefði átt að vera hægt að gera meira, reyna að gera meira og eitthvað róttækt til að ná til þessa særða barns. Langaði þig ekki að komast út úr þessum aðstæðum?

„Jú, ég lifði þessu undirheimalífi og fór sextán ára í mína fyrstu meðferð. Ég á afmæli í nóvember og jólin og áramótin áður en ég fór inn á sautjánda aldursárið var ég á Staðarfelli. Ég þráði mjög heitt að verða edrú og eiga venjulegt líf. Hélt að ég yrði alltaf edrú eftir þessa fyrstu meðferð en bjó samt hvergi. Kom út og féll eftir tvær vikur í bænum og fór í mikla sprautuneyslu og var mjög týnd. Ég segi stundum að ég bjó meðal róna og dóna. Sumt af þessu fólki var mjög gott fólk en týnt en aðrir voru ekki góðar manneskjur. Maður hefur lent í alls konar. En þarna byrjaði meðferðarsagan og ég fór inn og út úr meðferð, alltaf að reyna.  Það var ekki fyrr en ég varð tuttugu og tveggja ára að sleitulaus edrúmennska mín hófst.

Ég var ólétt sautján ára og rétt náði að verða átján áður en eldri stelpan mín fæddist. Þessi þrá eftir edrúmennsku var kviknuð en þá byrjaði baráttan fyrir alvöru því mig langaði svo að verða góð mamma. Ég gerði allt sem ég gat en bara náði ekki tökum á þessu. En á þessum tíma þegar ég var að berjast í bökkum með hana litla uppgötvaði ég að mörgum börnum í þessum heimi líður ekki vel. Margar vinkvenna minna voru í neyslu og ég fór að reyna að hlúa að börnunum þeirra þegar ég var í lagi. Náði í þau þegar þau voru í erfiðum aðstæðum og tók þau til mín. Barnaverndarnefnd studdi að ég tæki þau, hefði þau hjá mér um helgar og kæmi þeim svo inn á Mánagötu á mánudögum þar sem var athvarf fyrir börn í þessum aðstæðum. En mér fannst ég hafa tilgang þegar ég var að hjálpa þeim. Eftir ákveðinn tíma áttaði ég mig hins vegar á að ég var að taka þau út úr erfiðum aðstæðum og skila þeim í þær aftur þegar þau voru búin að ná smávegis jafnvægi. Þá áttaði ég mig á að það voru mömmurnar sem þurftu hjálp.

Á sama tíma og þessi hugsun var að mótast í huga mér var ég alltaf að rísa og falla en 16. ágúst 1993 er fyrsti edrúdagurinn minn í þessari sleitulausu edrúgöngu sem ég á í dag. Ég hóf að stunda tólf spora samtök og við vorum að skipuleggja kvennaferðir. Ég var með þá hugsun í huga þá að styðja konurnar og styrkja til að verða betri griðastaðir fyrir börnin sín. Á þeirri vegferð og með það í huga að hjálpa konum fór ég að sjá að konurnar sem ég var að styðja voru allt of oft beittar ofbeldi af barnsfeðrum sínum eða eiginmönnum. Það varð til þess að ég skildi að það yrði að hjálpa þessum körlum. Þær eflast og styrkjast í kvennaferðum en fara svo heim og þá bara búmm, sprengja. Eitthvað og einhver þarf að hjálpa þessum mönnum, bara í raun allri fjölskyldunni. Þá fór mig að langa til þess að starfa sem ráðgjafi eða eitthvað slíkt. En hvernig átti ég að fara að því ég var ekki með neina menntun?“