Díana Ósk Óskarsdóttir er í viðtali í páskablaði Samhjálpar. Ellefu ára var hún á götunni í Reykjavík, um fermingaraldur var kerfið búið að gefast upp á henni og síðan hefur hún séð um sig sjálf. Í dag hefur hún lokið fimm háskólagráðum og doktorsvörnin er á næsta leiti. Allt frá barnæsku hefur brennandi þörf fyrir að hjálpa fólki haldið henni gangandi og hún segir að sá sem öllu ræður haldi yfir henni verndarhendi. Hér segir hún frá fyrstu kynnum sínum af Jesú.
„Ég ólst upp hjá móður minni, konu sem hafði lifað tímana tvenna,“ segir hún. „Meðal annars hafði hún gefið frá sér elstu systur mína, þannig að þegar ég fæddist var mamma harðákveðin í að láta ekki frá sér þetta barn. Það var erfitt heima, bæði drykkja og ofbeldi áttu sér stað á heimilinu. Systir mín fæddist tveimur og hálfu ári á eftir mér og ég varð fljótt umönnunaraðili hennar. Fimm ára var ég orðin svo dugleg að ég hellti upp á kaffi, smurði samlokur, ryksugaði og þreif, sá um hlutina. Fór með hana á leikskóla en hafði sjálf ekki verið í leikskóla.
Stundum var ekki til matur í lengri tíma og við vorum búnar að koma okkur upp kerfi. Ýmist gátum við farið til ömmu og afa niður á Norðurgötu á Siglufirði eða þrætt hús í hverfinu. Ég var búin að uppgötva rúnt á milli eldri kvenna í nágrenninu þar sem við gátum bankað upp á og fengið það sem í dag myndi kallast bröns eða síðdegiskaffi. Við dóum svo sem ekki ráðalausar systur.
Þegar ég var um það bil fimm ára og systir mín rúmlega tveggja hafði mamma tekið saman við mann sem bjó í íbúð í húsi sem var áfast okkar. Hann var sonur hjóna sem voru kölluð trúbbarnir, það er stytting úr trúboðarnir. Þau voru með Hvítasunnukirkjuna Zíon á Siglufirði. Við tengdumst því þeirri fjölskyldu og fórum gjarnan í sunnudagaskóla í kirkjunni. Þau buðu einnig upp á hin ýmsu föndurkvöld og við tókum líka þátt í því. Mamma og þessi maður voru ekki saman nema í ár en við systur héldum áfram að hitta foreldra hans og fengum þar hlýju og skjól. Lærðum, að sjálfsögðu, um Jesú þar.
„Ég man alltaf eftir því að einhvern tíma höfðum við gist hjá þeim og ég hafði verið með miklar martraðir um nóttina,“ heldur Díana áfram. „Lauga, eins og hún var kölluð, sagði þá: „Díana mín, mundu bara ef þig dreymir svona illa að ákalla Jesú. Segðu bara nafnið Jesú í draumnum og þá mun þetta hætta.“ Og það raunverulega virkaði fyrir mig og ég notaði það óspart. Ég var í raun hugfangin af Jesú og var strax þarna komin með mikla elsku til hans.“