Í leiðara í páskablaði Samhjálpar gerir Edda Jónsdóttir framkvæmdastjóri Samhjálpar upprisuna að umtalsefni. Í dymbilviku er hún verðugt umhugsunarefni:
Eitt sinn var ég stödd á háskólasvæði í Suður-Karólínufylki í Bandaríkjunum, þar sem ég vann við kennslu. Þetta var á öskudaginn og strax að morgni tók ég eftir að nokkur fjöldi nemenda og starfsfólks háskólans var með svart krossmark á enninu. Ég spurði einn nemanda hverju þetta sætti og sá tjáði mér að hann hefði verið við öskudags-guðsþjónustu um morguninn. Krossmarkið hefði hann þegið sem tákn iðrunar og markaði það upphaf páskaföstunnar. Mér þótti þetta stórmerkilegt í marga staði. Í fyrsta lagi þótti mér merkilegt að upplifa að fólk gæti borið kristilegt tákn á enni sér á almannafæri og hvað þá innan veggja háskólans. Ég gekk sjálf í háskóla á Ítalíu, en þar er bannað að bera trúartákn á opinberum vettvangi háskólans. Í öðru lagi þótti mér þetta forvitnilegur siður að bera krossmark gert úr ösku. Seinna hef ég komist að því að siðurinn á sér ævafornar rætur og tíðkast í ýmsum kirkjudeildum víða um heim. Sjálf var ég þeirrar gæfu aðnjótandi að vera við slíka öskudags-guðsþjónustu hér á landi nú við upphaf páskaföstunnar og vona ég að sá siður muni festa sig í sessi, enda veitti stundin bæði innblástur og hugarró.
Á páskaföstunni erum við minnt á að við höfum val um að sleppa tökunum á því sem ekki þjónar okkar lengur og taka upp betri siði. Við getum æft okkur í sjálfsaga. Látið eitthvað á móti okkur, sem við allajafna leyfum okkur. Það var til siðs áður fyrr að sleppa allri kjötneyslu á páskaföstu en margir halda enn í þann sið að neyta sjávarfangs á föstudaginn langa og brjóta svo kjötföstuna með páskalambinu á sjálfan páskadag. En hvað sem siðum 0g hefðum líður er páskahátíðin sannarlega hátíð upprisunnar. Við erum minnt á að mannssonurinn lét lífið fyrir misgjörðir okkar og reis upp frá dauðum á þriðja degi. Fórnardauði Krists varð okkur til lífs. Upprisa hans er von okkar um að við getum risið upp þegar lífið hefur leikið okkur grátt.
Í þessu páskablaði er að finna fjölmörg dæmi um sannkallaðar upprisusögur. Sannar sögur einstaklinga sem hafa fundið sigurinn yfir kringumstæðunum og byggt upp líf sem er svo sannarlega til eftirbreytni. Megi frásagnirnar verða ykkur lesendum innblástur til að hjálpa okkur hjá Samhjálp að hjálpa öðrum. Saman erum við sterkari.