Skip to main content

Að gegna hlutverki í samfélaginu er öllum mikilvægt. Hins vegar koma tímabil í lífi margra þegar heilsan brestur og viðkomandi þarf að stíga til hliðar og endurmeta stöðu sína. Þá reynir á hæfni samfélagsins til að veita honum rými til að vinna sig til baka og finna sig aftur jafnt á vinnumarkaði sem í einkalífi. IPS, eða Individual Placement and Support, er endurhæfingarkerfi byggt á vísindalegri þekkingu, sniðið að þörfum hvers og eins og miðar að því að skila heilum og hæfum einstaklingum út í lífið aftur.

VIRK-starfsendurhæfingarsjóður er frumkvöðull þessarar stefnu hér á landi og á þeim árum sem VIRK hefur starfað hafa leitað þangað fjölmargir einstaklingar sem hafa fengið bót meina sinna og tekist að verða jafnhæfir eða hæfari en áður til að takast á við verkefni sín. Lagt er upp úr því að mæta fólki þar sem það er statt hverju sinni og vinna þverfaglega að því að byggja upp andlega jafnt sem líkamlega heilsu þess. Árið 2016 kom hingað til lands dr. Tom Burns, heiðursprófessor við Oxford-háskóla, og talaði á ráðstefnu á vegum VIRK. Í ársriti VIRK árið 2017 birtist grein eftir prófessorinn þar sem hann fer yfir endurhæfingu einstaklinga sem glíma við geðræn vandamál.

Hann talar þar um rannsóknir og söfnun þekkingar á endurhæfingu í tengslum við breytta stefnu í geðheilbrigðismálum. Mjög fljótt hafi komið í ljós að starfsendurhæfing skipti miklu fyrir þá sem nutu hennar og góður árangur náðist í að byggja upp fólk og auka hæfni þess í starfi. Atvinnumarkaðurinn var hins vegar seinni til og enn vantar upp á að menn þar sjái tækifæri í að ráða þetta fólk í vinnu og mæta því, t.d. með sveigjanlegum vinnutíma og binda ekki viðkomandi við tiltekna starfsstöð. Að vinna heima, eins og algengt var í Covid 19-faraldrinum, getur nefnilega leyst vanda mjög margra sem búa við skerta starfsgetu af einhverjum ástæðum. Vinnan væri þá ekki bundin við tiltekinn tíma dags heldur verkefni sem skila þyrfti fyrir ákveðinn skiladag.

„Atvinna með stuðningi, sem notuð var fyrir einstaklinga með námsörðugleika, var innleidd um 1970 fyrir einstaklinga með geðræn vandamál og þróaðist síðan í það að verða einstaklingsmiðaður stuðningur til starfs eða „Individual Placement and Support (IPS)“, segir dr. Burns í greininni.

Byrja fljótt að leita að vinnu

Hann talar einnig talað um að IPS leggi megináherslu á skjóta atvinnuleit án nákvæms undirbúnings og hefur ítrekað verið sýnt fram á að IPS er árangursríkasta aðferðin. „Hún hefur hins vegar ekki verið mikið notuð og sú regla að ákveðinn fjöldi einstaklinga geti verið hjá ráðgjafa hverju sinni ásamt því að einstaklingar séu „aldrei útskrifaðir“ takmarkar nýtingarmöguleika hennar.“ segir dr. Burns í greininni.

„IPS-LITE er hins vegar aðlöguð IPS aðferð sem styttir upphaflega íhlutun í níu mánuði og stuðning í vinnu í fjóra mánuði og eykur þar með afköst og skilvirkni. Niðurstöður slembdrar samanburðarrannsóknar (RCT) á 123 sjúklingum sýndu að hún var jafn árangursrík og ætti því að vera arðbærari, þar sem fleiri njóta þjónustunnar. Hér er því lagt til að IPS-LITE verði valin því hún hefur þann kost að geta komið í veg fyrir þá tilhneigingu að fjarlægjast IPS-aðferðafræðina sem hefur verið viðvarandi vandamál IPS-þjónustunnar.“

Framúrstefnulegar aðferðir og áhugaverð framtíðarsýn

Þótt IPS hafi upphaflega verið þróað til að nýtast fólki sem glímir við andleg veikindi að finna leið inn á vinnumarkaðinn aftur og starf við hæfi hafa hugmyndafræðin og aðferðirnar verið víkkaðar út og notaðar til að styðja margvíslega og ólíka hópa víða um heim. Meðal annars má nefna uppgjafahermenn að ná sér af áfallastreitu, fólk sem glímir við kulnun, manneskjur að ná sér eftir langvarandi alvarleg veikindi og einstaklinga í bata frá fíknisjúkdómum. Hér á landi hefur VIRK hingað til verið eina úrræðið og gegnt lykilstöðu í að styðja og aðstoða fólk, oft með flókinn og fjölþættan vanda í að bæði ná bata og starfsgetu að nýju. Og VIRK-starfsendurhæfingarsjóður hefur einnig verið leiðandi í rannsóknum á árangri þeirra aðferða sem notaðar eru til að byggja upp skjólstæðingana og vegferð þeirra eftir að þeir ljúka endurhæfingunni og hefja störf að nýju.

IPS gengur út að tryggja að fólk taki fljótt þátt í samfélaginu aftur sem fullgildir meðlimir í því, samhliða vandaðri endurhæfingarstarfsemi þar sem tekið er á sértækum vanda hvers og eins og hann byggður upp líkamlega jafnt sem andlega. Að baki hverjum og einum er teymi og er hlutverk þeirra m.a. að finna starf fyrir einstaklinginn. Atvinnuráðgjafar leita uppi áhugasama vinnuveitendur, fá þá í samstarf og rækta tengslin við þá. IPS-rannsóknir hafa nú verið stundaðar í mörgum löndum í nægilega langan tíma til að ljóst sé að niðurstöður þeirra eru stöðugar og benda eindregið til að þátttaka á vinnumarkaði skili einstaklingnum árangri og aukinni vellíðan, vinnuveitendum góðum starfskröftum og samfélaginu verðmætum þjóðfélagsþegnum.

Atvinna forspárþáttur hvað varðar edrúmennsku

Meðal þeirra sem sýnt hefur verið fram á að geti notið góðs af aðferðum IPS er fólk sem glímir við fíknivanda. Oft myndast gat í ferilskrá fólks vegna þess vanda og það kann að skapa tortryggni meðal atvinnurekenda. Fordómar og skilningsleysi á aðstæðum fólks sem glímir við fíknisjúkdóma geta einnig ráðið þar miklu. Þá er mikilvægt að hafa aðgang að starfsendurhæfingu og fá í gegnum hana tækifæri til að vinna að lausn. Að fá vinnu og komast aftur út á vinnumarkaðinn er, samkvæmt rannsóknum, einn forspárþáttur árangursríkrar fíknimeðferðar og langvarandi edrútíma að meðferð lokinni.

Hafi einstaklingurinn fasta vinnu virðist hann sinna eftirmeðferð sinni og edrúmennsku af meiri áhuga og metnaði en þeir sem ekki hafa vinnu. Þeir hafa einnig meiri möguleika á að byggja upp sjálfstætt og ánægjuríkt líf. Sjálfsöryggi þeirra eykst, sjálfsmyndin batnar og þeir fara að líta á sig sem fullgilda þegna í samfélaginu. Atvinnunni fylgja einnig aukin félagsleg tengsl og möguleikar á menntun eða endurmenntun. Inntökuviðmið VIRK fyrir einstaklinga með fíknivanda eru metin út frá hverjum einstaklingi fyrir sig. Þá er horft til stöðugleika í edrúmennsku og líðanar einstaklings. Einstaklingur verður þó sem áður að uppfylla önnur viðmið VIRK um rétt til þjónustu, og er edrúmennska skilyrði á meðan á starfsendurhæfingu stendur.

Við skrif þessarar greinar var stuðst við fjölmargar greinar á heimasíðu VIRK, í ársrit VIRK, auk upplýsinga af heimasíðu landlæknisembættisins og erlendra greina á internetinu.

Ósigurinn ekki heppilegur

Tryggvi K. Magnússon er forstöðumaður áfangaheimila Samhjálpar og vinnur daglega með fólki sem er að hefja lífið upp á nýtt eftir meðferð við fíknisjúkdómum. Hann hefur margþætta og mikilvæga reynslu af því að styðja fólk fyrstu skrefin aftur á vinnumarkaði. Við spurðum hann um gildi IPS, eða Indvidual Placement and Support. Hann kvaðst ekki þekkja til þess hugtaks en þekkir vel gildi þess að taka tillit til þarfa einstaklingsins við hvert og eitt skref sem hann stígur út í lífið aftur.

Hverju skiptir það, að þínu mati, fyrir einstaklinga að komast sem fyrst í vinnu eftir að meðferð við fíkn lýkur?

„Það þarf að meta hæfnina fyrst með því að tala við einstaklinginn og komast að því hvað hann treystir sér til að gera. Ef viðkomandi telur sig geta farið að vinna er það það besta í stöðunni fyrir fólk sem hefur heilsu að vinna því það eykur sjálfstraust, er valdeflandi og gefur fjárhagslegt öryggi og aukið sjálfstæði. En það er mjög mikilvægt að þetta mat fari fram því ef viðkomandi fer í vinnu áður en hann er í raun fær um það endar það með ósigri. Þegar þú hefur verið ánetjaður fíkn í langan tíma ertu alltaf að tapa og það er því mjög erfitt að taka ósigrinum.“

Hvernig finnst þér fólki sem getur unnið ganga að fá vinnu?

„Þessi misserin gengur það þokkalega,“ segir hann.

Er framboð á atvinnu fyrir þá sem þurfa stuðning eða sveigjanleika?

„Nei, vinnumarkaðurinn er allt of ferkantaður hvað varðar það að mæta mismunandi þörfum. Það þarf að flokka fólk og ég nota orðið flokka því ég finn ekki annað betra. Getur t.d. Siggi farið í fulla vinnu eða þarf hann hlutastarf? Eins gæti hann hugsanlega unnið fjarvinnu. Stundum vill einstaklingur vinna fulla vinnu og ég sé að hann hefur ekki burði til þess og þá þarf ég að taka þetta samtal. Ertu viss um að þetta sé það besta fyrir þig? Um daginn var ég til að mynda með skjólstæðing sem vildi leita til VIRK-starfsendurhæfingarsjóðs; við töluðum saman og komumst í sameiningu að þeirri niðurstöðu að betra væri fyrir hann áður að vinna með geðheilsuteymi og leita svo til VIRK,“ segir Tryggvi að lokum.