Skip to main content

Reikna má með að margir hvái þegar þeir sjá fyrirsögnina á þessari grein því allir vita jú að hamingja er nafnorð. Tilvitnunin hér að ofan er hins vegar höfð eftir bandaríska rithöfundinum Elizabeth Hall og hún bætti við: „[…] vinna þarf að henni daglega.“ Og það er einmitt það sem flest sagnorð gera. Þau segja okkur að aðhafast eitthvað, vinna að einhverju, skapa eða gera eitthvað í hlutunum. Hamingjan er ástand sem hægt er að öðlast með iðkun og þjálfun ekkert síður en að þiggja hana að gjöf.  

Gríski heimspekingurinn Aristóteles hafði sínar hugmyndir um hamingjuna. Hann var uppi á fjórðu öld fyrir Krist og skrifaði mikið um vináttu, hamingju og gleði. Að hans mati voru hamingja og gleði tvær aðskildar tilfinningar. Hægt var að finna fyrir gleði og ánægju án þess að hamingja fylgdi. Gleðin er tímabundin og ánægjan sömuleiðis en hamingjan langvarandi. Hann talaði líka um muninn á hlutlægri og huglægri hamingju.  

Nú á dögum notum við þessi orð frjálslega og veltum iðulega ekki fyrir okkur merkingu þeirra eða muninum. Fólk talar um að elska hitt og þetta, allt frá mat upp í íþróttagrein, og á það til að lýsa því yfir að munnbiti af þessu eða fyrsta golfskotið sé hrein hamingja. Við lítum gjarnan á aðra og segjum: „Þau eru svo hamingjusöm“ eða „Hann hefur lifað löngu og hamingjuríku lífi.“ En er það svo? Í besta lagi getum við fullyrt að viðkomandi hafi sloppið við stór áföll á borð við ástvinamissi, stórfellt fjárhagstjón eða aðra óáran. Hins vegar er fremur óábyrgt að fullyrða að það hafi skapað hamingju.  

Hamingjan krefst ástundunar 

Hvað var Aristóteles þá að tala um? Jú, hann vildi meina að hamingja næðist aðeins í gegnum ástundun og það tæki ævina að öðlast hana. Hann reyndi að kryfja hamingjuna, hvernig hún kemur innan frá, sprettur upp, oft algerlega óháð ytri aðstæðum. Fátækur maður er til að mynda stundum mun hamingjusamari en ríkur maður. Hamingjan kemur og fer hjá mörgum en að mati Aristótelesar felst hún í innri ró, þeirri tilfinningu að líf manns hafi tilgang og að orð og gjörðir skili öðrum verðmætum, og þá er hún varanleg. Þetta er nokkuð sem hver og einn verður að skapa sjálfum sér og þá komum við aftur að hamingjunni sem sagnorði. Aristóteles setti upp áætlun fyrir einstaklinginn og fullyrti að ef farið væri eftir henni yrðu menn hamingjusamir.   

Hann byrjaði á sjálfsþekkingu. Að manneskjan þekkti sjálfa sig og sætti sig við eigin takmarkanir, síðan að hún fyndi lífi sínu meiningu eða tilgang og kæmist þannig í nokkurs konar flæði eða sátt við umhverfi sitt og lífið. Að verða hamingjusamur einstaklingur er, að sögn Aristótelesar, fólgið í þinni eigin merkingarfullu stund þegar þú tekur ábyrgð á eigin líðan. Hann sagði að innra með manneskjunni byggi vald til að ákveða að skapa sér hamingju algerlega óháð öllu öðru. Um leið og manneskja ákveður að verða besta útgáfan af sjálfri sér fylgir hamingja. Óhöpp og ólán geta hent alla en það eitt að vera meðvitaður um þetta vald og hafa ákveðið að nýta styrk sinn til að skapa sér innri hamingju er nóg til að viðkomandi hafi tæki til að komast yfir og vinna sig frá áföllum.  

Sannri hamingju ná menn svo með ævilangri ástundun, með því að lifa skynsamlega og ástunda dyggðir. Slíku líferni fylgir óhjákvæmilega velmegun, vinátta og viðurkenning. Aristóteles ályktaði að hæfnin til vitræns þroska skilji menn frá dýrum og feli í sér fræ hamingjunnar. 

Oprah Winfrey hefur vísað til þessara merkingarþrungnu stunda sem nokkurs konar uppljómunar (e. aha moments), þegar einhver sannleikur eða sannindi um sjálfið, lífið og tilveruna rennur upp fyrir þér og upp frá því breytist allt. Slíkar stundir eru verðmætar og gjarnan lengi í minnum hafðar. Þær eru vörður á vegferð hvers og eins til þroska og oft gott að hugsa til baka til þeirra þegar erfiðleikar knýja á. Ævi fólks er misjafnlega viðburðamikil en oft safnast þekkingin upp á ferðalagi okkar gegnum lífið. Að lokum er hægt að líta til baka og virða fyrir sér viskumolana sem safnast hafa upp eins og steinvölur á lífsleiðinni. Vegferð hvers einstaklings er einstök en hamingjuna geta allir höndlað og varðveitt hana með því að muna að hún þarfnast umönnunar og ræktunar því hún er í eðli sínu sögn, þótt orðið sé sé sannarlega nafnorð.