
Það leynist margur fjársjóðurinn á fataslánum á Nytjamarkaðnum.
Nytjamarkaður Samhjálpar flutti nýlega úr Ármúlanum og upp í Hólagarð í Lóuhólum í Breiðholti. Í nýjasta Samhjálparblaðinu er að finna myndir og umfjöllun frá heimsókn Steinars Inga Kolbeins aðstoðarmanns umhverfisráðherra á markaðinn. Á þeim rúma áratug sem markaðurinn hefur verið starfræktur í rúman áratug hefur hann náð að verða mikilvægur hluti af fjáröflun Samhjálpar. Á sama tíma er hann traustur hlekkur í keðju hringrásarhagkerfis sem Guðlaugur Þór Þórðarson umhverfisráðherra hefur áhuga á að treysta í sessi hér á landi.
Hringrásarhagkerfi er mjög lýsandi orð og flestir sjá fyrir sér að þar sé um að ræða efnahagskerfi þar sem hlutir ganga manna á milli eða í endurnýjun lífdaga þar til þeir eru fullnýttir. Það er alls ekki fjarri lagi en á heimasíðu umhverfisráðuneytisins er eftirfarandi skilgreiningu að finna: „Hringrásarhagkerfið er hagkerfi þar sem leitast er við að koma í veg fyrir að auðlindir verði að úrgangi með áherslum sem tryggja að hægt sé að viðhalda verðmætum auðlinda eins lengi og mögulegt er. Markmiðið er að lágmarka auðlindanotkun og þar með úrgangsmyndun. Hugmyndafræði hringrásarhagkerfisins er nokkuð margþætt og nær einnig til þess að endurmeta og endurskilgreina lífsgæði. Helstu aðgerðir sem tryggja að auðlindum sé haldið í hagkerfinu eru að deila, gera við, endurnota, endurframleiða og endurvinna.“
En Steinar Ingi Kolbeins, er hringrásarhagkerfið eitthvað sem þið hafið áhuga á í umhverfisráðuneytinu og hyggist þið stuðla að aukinni endurnýtingu?
„Guðlaugur Þór setti starfshóp til að skoða þessi mál vegna þess að við Íslendingar erum mjög góðir í mörgu er snýr að sjálfbærni, til dæmis eru 90% orkunnar sem nýtt er í landinu græn, en þegar kemur að hringrásarhagkerfinu skulum við segja að það séu veruleg sóknarfæri. Við erum á svipuðum stað og löndin sem við berum okkur helst saman við,“ segir hann. „Þetta snýst um að taka allt hagkerfið og umbreyta því í grænt og sjálfbært ferli. Aðeins um það bil 10% hagkerfisins eru í einhvers konar hringrásarferli. Það þýðir að 90% eru enn í línulegu ferli. Þór Sigfússon, sem stýrir hópnum, stofnaði sjávarklasann til að stuðla að auknu samstarfi og betri nýtingu á aflanum í sjávarútvegi og við erum komin einna lengst þar. Starfshópnum er ætlað að finna auðveld sóknarfæri í hringrásarhagkerfismálunum. Hann sá strax að í endurnýtingu á nytjahlutum og fötum værum við komin hvað lengst og þar koma helst við sögu staðir eins og Nytjamarkaður Samhjálpar og aðrir sambærilegir. Margir spá því að þriðjungur af markaðnum verði einhvers konar endurvinnslu- og endurnýtingarverslun á því sviði. Málefni

Steinar Ingi er að læra af yngri bræðrum sínum að kaupa á nytjamörkuðum.
úrvinnslusjóðs og endurvinnslu á rusli þurfa hins vegar meiri og betri skoðunar við.“
Kaupir þú sjálfur föt á nytjamörkuðum?
„Ég er að temja mér þetta,“ segir hann svolítið sakbitinn á svip. „Ég er að læra af þeim sem yngri eru. Litlu bræður mínir eru komnir mun lengra í þessu en ég. Það var gaman að á ferðalagi okkar um Danmörku um daginn voru þeir báðir búnir að þefa uppi einhverjar „thrift stores“ og vildu fara þangað. Maður fær svolítið sjokk fyrst þegar komið er inn ef maður er ekki vanur að versla í svona búðum. Það er svo ofboðslega mikið af fötum og ótrúlega margt fólk að hræra í þessu en svo kemst þetta upp í vana.
Þetta er mjög vinsælt hjá yngri krökkunum og þau kunna á markaðina og að setja saman margvísleg og ótrúlega skemmtileg „look“. Ég þarf að reyna að læra af þeim hvað þetta varðar. Annars verðum við öll að leggja okkur fram og læra nýja hætti og siði. Það er auðvitað algjört rugl að kaupa ótal bómullarboli sem allir eru innfluttir í massavís og kolefnissporið rýkur upp úr öllu valdi.“
Finnst þér við Íslendingar kaupa of mikið af fötum?
„Já, örugglega gerum við það,“ segir hann. „Neyslan hér, eins og annars staðar á Vesturlöndum, er mjög mikil. Ég er hins vegar þannig forritaður að ég er ekki mjög hrifinn af að banna fólki að gera hluti. Ég vil frekar fræða og finna leiðir til að gera það aðlaðandi fyrir það að gera betur á eigin forsendum. Bönn held ég að séu aldrei leiðin. Ég held hins vegar að mjög margt muni breytast á næstu tíu til tuttugu árum. Í fyrra var gerð risastór rannsókn á viðhorfum kynslóða. Í ljós kom að þær tvær kynslóðir sem eiga hvað mest sameiginlegt hvað varðar nýtni, þ.e. að nýta út úr, bæta og breyta, eru elsta og yngsta kynslóðin, fólk sem í dag er komið yfir áttrætt og yngra en tvítugt. Eftir tíu ár verður yngsta kynslóðin orðin ráðandi á neyslumarkaði og þá segir það sig sjálft að með nýjum hugmyndum muni eftirspurn eftir notuðum hlutum aukast.“
Steinar Ingi er því bjartsýnn á framtíðina en hann bætir líka við hlæjandi að þegar hann tók við starfi aðstoðarmanns ráðherra hafi hann farið í Kringluna til að kaupa sér skyrtur og peysur. Vinir hans hafi strítt honum og spurt hvort hann væri að kaupa sér trúverðugleikann eða einkennisbúning embættismanna. Nú bregður hins vegar svo við að hann finnur bæði jakka, hettupeysu og peysu sem honum líst á og fer með heim og jakkinn er einmitt í lit trúverðugleikans og traustsins, eða blár.