Skip to main content

Átakinu, Ekki líta undan er nýlokið og starfsfólki Samhjálpar efst í huga þakklæti fyrir góðar viðtökur.  Íslendingar hafa sýnt enn og aftur að þeir vilja standa saman og styðja hver annan. Á hverjum degi eru gefnar 350 máltíðir á Kaffistofu Samhjálpar, ótal súpuskálar fylltar og drukknir nær óteljandi kaffibollar. Við trúum því nefnilega að enginn eigi eða megi vera svangur á Íslandi, á þessu auðuga og góða landi. Engu að síður er það staðreynd að sumir eiga ekki fyrir mat út mánuðinn og sumir búa við slíka neyð að þeir eiga ekkert. Þetta er sá samfélagshópur sem er hvað viðkvæmastur og upplifir oft mikla fordóma og skömm. En á Kaffistofu Samhjálpar er að finna skjól fyrir jaðarsetta hópa í samfélaginu.

Frá árinu 1981 hefur Samhjálp rekið Kaffistofuna og við teljum heiður að því að fá að rétta fram hjálparhönd vegna þess að enginn á að vera kaldur og hrakinn á Íslandi og hér þarf enginn að skammast sín fyrir að leita hjálpar. Allir þurfa einhvern tíma liðsinni og þá ríður á að þeim sé mætt af virðingu, skilningi og kærleika en það eru einmitt gildin sem höfð eru að leiðarljósi í öllu starfi Samhjálpar og á Kaffistofunni eru allir jafnir. Upphafsorð mannréttindayfirlýsingar Sameinuðu þjóðanna eru eftirfarandi: „Sérhver manneskja er borin frjáls og jöfn öðrum að virðingu og réttindum.“ Þetta eru augljós sannindi og á ábyrgð allra að hafa þau í heiðri. Gamall íslenskur málsháttur minnir okkur einnig á að það liðsinni sem við veitum skilar okkur sjálfum miklu en þar segir: Þegar einn hjálpar öðrum eru báðir sterkari.

Ekki líta undan. Horfum í augu meðbræðra okkar hvar sem við mætum þeim og réttum fram hjálparhönd af einlægri hlýju og trú á eindrægni í samfélaginu. Samstaðan skilar árangri, samhjálp veitir tækifæri og þú getur hjálpað okkur að hjálpa öðrum.