Það eru tuttugu og fjórir tíma í sólarhringnum og allir þurfa að finna sér leið til að njóta þeirra. Stundum fljúga þeir hjá en stundum þarf að þreyja þá og halda í vonina um að betri tíð bíði. Árið 1954 kom bókin, Twenty-Four Hours a Day, út og síðan þá hefur hún hjálpað mörgum sem glíma við fíkn við að takast á við erfiða daga, finna ró og njóta betri daga og vísa sér veginn áfram þegar leiðin virðist ekki greið. Upphaflegur höfundur var Richmond Walker en síðan hafa aðrir bætt við textum og hugleiðingum. Bókin hefur selst í meira en níu milljónum eintaka en hún inniheldur umfjöllun um sporin tólf, bænir, hugleiðslutexta og vangaveltur um lífið. Hefð er fyrir að gefa þessa bók út í vasabroti með einfaldri svartri kápu. Þess vegna er hún þekkt sem litla svarta bókin og sumir kjósa að bera hana með sér hvert sem þeir fara.