Skip to main content

Málverkið Happiness eftir listamanninn Itay

Nútímamenn eru mjög uppteknir af hamingjunni og leita hennar víða og eftir margvíslegum leiðum. Heimspekingar, sálfræðingar og aðrir fræðingar hafa lagt sig fram um að skilgreina hana og rannsaka frá örófi alda en svörin eru jafnmörg og mennirnir. En hvar er hamingjuna að finna og hvernig er hægt að tryggja að hún vari lengur en örskotsstund?

Biblían talar um hamingju en skilgreinir hana á allt annan hátt en við gerum. Í þeirri fornu bók er hamingjan innri ró og miðast við að vera sjálfum sér nægur. Hamingjan er tengd blessun Guðs og sá sem er blessaður nýtur hamingju. Hebreska orðið „ashrê“ kemur nokkrum sinnum fyrir í gamla testamentinu en það mætti þýða ýmist vellíðan, að blómstra eða hamingja. Þýðendur hafa valið að nota orðið blessun eða blessaður yfir þetta hugtak í þýðingum sínum en þá má ekki rugla því saman við orðið „bārak“ en það hebreska orð þýðir beinlínis blessun.

„Í þeirri fornu bók er hamingjan innri ró og miðast við að vera sjálfum sér nægur. Hamingjan er tengd blessun Guðs og sá sem er blessaður nýtur hamingju.“

Bārak vísar til þess að Guð gefi manninum leyfi til að halda áfram á þeirri vegferð sem hann er á og um leið að njóta ávaxta erfiðis síns og er meðal annars að finna í sköpunarsögunni í fyrstu Mósesbók, 1:22: „Guð blessaði þau og sagði, „Frjóvgist og fjölgið ykkur og fyllið vötn sjávarins og fuglum fjölgi á jörðinni.““ Í Matteusarguðspjalli er „ashrê“ notað og þar og þýtt á íslenku: „Sælir eru þeir sem ofsóttir eru fyrir réttlætis sakir því að þeirra er himnaríki.“ (Matt. 5:10). Þetta sýnir auðvitað allt aðra mynd af sælu eða hamingju en við höfum og fáir myndu telja ofsóknir líklegar til að skapa mönnum hamingju. Hugmyndafræðin helst hins vegar í hendur við þann skilning Biblíunnar á hamingju að hún sé ævinlega tengd skyldum og uppfyllingu þeirra. Þegar menn taka á sig skyldur sínar, sinna þeim vel og af trúmennsku veitist þeim blessun eða hamingja.

En hvað er þá hamingja? Varla er vænlegt til árangurs að leita einhvers sem við vitum ekki hvað er í þeirri von að við þekkjum það þegar það fellur í fangið á okkur. Flestir heimspekingar hafa skilgreint hamingjuna sem djúpstæða innri vellíðan og fullvissu um að við séum einmitt þar sem við eigum að vera. Síðan tengja menn þessa líðan við ótalmargt annað, andlegt og líkamlegt heilbrigði, velmegun, þá tilfinningu að þú hafir tilgang, að líf þitt og þjáning þjóni einhverju æðra markmiði. Þeir eru einnig sammála um að hamingjan sé viðvarandi tilfinning meðan gleðin, unaðurinn og sælan séu tímabundnar og líði hjá um leið og sú upplifun sem kveikti þær sé hjá.

„Darrin M. McMahon, prófessor í sagnfræði við Flórída-háskóla í Bandaríkjunum og höfundur bókarinnar, Happiness; A History, er þess fullviss að ef við færum fókusinn frá eigin hamingju yfir á að stuðla að hamingju annarra skili það okkur sjálfum aukinni hamingju.“

Hamingjan er þá háð því hvernig við túlkum veröldina og okkar stað í henni. Darrin M. McMahon, prófessor í sagnfræði við Flórída-háskóla í Bandaríkjunum og höfundur bókarinnar, Happiness; A History, er þess fullviss að ef við færum fókusinn frá eigin hamingju yfir á að stuðla að hamingju annarra skili það okkur sjálfum aukinni hamingju. Hann hefur rannsakað hamingjuna, kenningar um hana allt frá því Forn-Grikkir tóku til við að skoða hana og fram að deginum í dag. Hann bendir einnig á að við lítum í dag á hamingjuna sem sjálfsagðan fæðingarrétt hvers og eins, að allir eigi rétt á að hljóta hana en í raun getum við aðeins sem samfélag skapað þegnunum sem jöfnust tækifæri til að leita hennar. Í hverju hún endurspeglast er svo einnig bitbein og tilefni rökræðna því margir telja eins og Rómverjar til forna að hún sé mæld í velgengni og auðsöfnun og guðirnir sýni þannig velvild sína gagnvart einstaklingnum. Það hins vegar er alls ekki viðhorf Jesús Krists. Hann sagði ríka manninum að gefa allar eignir sínar áður en hann fylgdi honum. Hann telur einnig að menn hafi um of ruglað saman hugtökunum hamingja og nautn (pleasure) en það rugli fólk um of í rýminu. Það að einbeita sér stöðugt að eigin líðan eða vanlíðan sé nóg til að gera hvern mann ruglaðan og þess vegna eigum við að líta upp, horfa út um gluggann og leita leiða til að gera öðrum gott.

Þetta er auðvitað einnig kjarni kristninnar. Jesús sagði að sókn eftir veraldlegum gæðum væri eftirsókn eftir vindi og hvatti menn til umburðarlyndis og umhyggju fyrir öðrum. Starf Samhjálpar stendur á þeim grunni og kristallast meðal annars í átakinu Ekki líta undan. En hvort sem menn hafa höndlað hamingjuna eða ekki gefur það öllum mikið að vita að þeir hafi lagt hönd á plóg til að létta þeim verst settu í samfélaginu lífið.