Skip to main content

Oft eru það smáatriðin í lífinu sem veita mesta ánægju. Blátt blóm í gráum mosa, ilmur af rósum, kertaljós í glugga eða frostrósir á gangstígum. Hversu smátt sem það kann að vera er vert að kíkja eftir því og njóta augnabliksins. Þetta veit McKay Lenker Bayer, myndlistarkennari í Utah, sem fékk þá hugmynd að setja saman sýningu á örsmáum listaverkum, sem nefnist Tiny Art Show.

Hún bjó til pínulitlar myndir og listmuni og hengdi upp rétt ofan við gólflistana í sýningarrýminu. Það er því ekki nóg með að gestir þurfi að píra augun til að greina myndirnar, heldur verða þeir að leggjast á gólfið eða beygja sig ansi vel niður til að sjá þær. McKay er alls ekki ein um að hafa gaman af hinu smáa og vilja vekja athygli á því. Listaskólar, listamenn og gallerí hafa sett upp örlistasýningar og boðið gestum stækkunargler til að ganga um og njóta. Eina skilyrðið til að setja upp slíka sýningu er að hafa í huga að sýningin er hönnuð til að skapa eigin veröld, lítinn heim í okkar heimi.

Örlítil list, stórir draumar

Guðlaugur Arason býr til heim í hnotskurn í sínum skemmtilegu myndverkum.

Örlistin krefst meira af áhorfandanum en stór listaverk. Hann þarf að hafa fyrir að skoða þau og njóta þeirra. Smæðin gerir það einnig að verkum að margt er líklegra til að fara framhjá honum en á hefðbundnum sýningum. Guðlaugur Arason, eða Garason eins og hann kallar sig, er sá íslenskur listamaður sem mest og best hefur ástundað örlist. Öll verk hans eru heimur í hnotskurn. Örsmáar bækur í litlum hillum, inni í litlum herbergjum, stundum stofur, stundum barnaherbergi og stundum skrifstofur en alltaf heillandi og unnið af ótrúlegri nákvæmni og listfengi.

Ímyndunaraflið

Örlist kveikir á ímyndunaraflinu og sogar fólk til sín eins og segulstál. Það er dásamlegt að sökkva sér ofan í þennan pínulitla heim og ímynda sér íbúana, litlu Gunnu og litla Jón, á gangi um sali eða við hversdagsiðju sína í hlýlegum herbergjum fullum af bókum. Forvitnin verður öllum hömlum yfirsterkari og það gott að grípa stækkunargler og krjúpa eða halla sér fram með nefið alveg að þessu ævintýralega smáa og skemmtilega umhverfi.

Listin til allra

McKay Lenker Bayer bendir á að ekki eingöngu sé örlistin skemmtileg og til þess fallin að fá áhorfendur til þátttöku í verkinu, heldur sé hún mun ódýrari en stærri listaverk. Það sé mun auðveldara fyrir venjulegt fólk að kaupa málverk á stærð við frímerki en mun stærra verk. Þau stærri krefjist líka veggpláss, sem ekki er alls staðar í boði. En að njóta þess að skoða þessa örsmáu og fullkomnu hluti er líka góð leið til að minna okkur á hið smáa og verðmæta í lífinu.

Mörg listasöfn og listaskólar hafa sett upp sýningar á örlist.