Skip to main content

Kristbjörg St. Gísladóttir, ráðgjafi, þekkir mikilvægi þess að vera í núinu. Hún hefur unnið við einstaklings- og fjölskylduráðgjöf,  áfengis- og vímuefnaráðgjöf frá árinu 2001 og er auk auk þess markþjálfi og kann ótal leiðir til að aðstoða fólk við að ná markmiðum sínum. Kristbjörg vinnur á Hlaðgerðarkoti og tekur þar þátt í prjónahópi en handavinna er þekkt leið til að tæma hugann og njóta stundarinnar.

Hvenær varð prjónahópurinn til? „Prjónahópurinn varð til í nóvember 2022,“ segir Kristbjörg. „Ég var að tala um hvað væri mikilvægt þegar þær yrðu edrú að finna sér áhugamál til að grípa í og það þyrfti ekki að vera flókið og/eða dýrt og nefndi m.a. að prjóna/hekla og þá kom í ljós að það voru alls ekki allar sem kunnu það. Það var tekin ákvörðun um að breyta því hið snarasta og ég lagði til að byrja á einhverju einföldu eins og t.d. þvottapoka og kom með allt bómullargarn sem ég átti heima hjá mér og eitthvað af prjónum og nokkrar heklunálar. Þannig að einhverjar gerðu þvottapoka fyrir alla fjölskyldumeðlimi og gáfu í jólagjöf.“

Hér í gamla daga prjónuðu karlmenn ekkert síður en konur í baðstofunni. Eru bara konur í prjónahópnum?  „Jú jú, það eru pínulítið breyttir tímar og í dag viljum við hafa kynin sem mest aðskilin því það hefur meðferðalegt gildi þannig að það eru bara konur í þessum prjónahóp hjá mér. En ég þekki fullt af flottum prjónakarlmönnum og ef karlmennirnir hjá okkur óskuðu eftir því að læra þetta þá væri það að sjálfsögðu í boði að setjast niður með þeim og kenna þeim,“ segir Kristbjörg.

Hvers vegna fóruð þið að setjast saman við prjónana? „Þeim fannst þetta mjög gaman, svo langaði þeim að gera meira og fóru að fá fólkið sitt til að senda sér garn og núna eru þær flestar að prjóna trefla og/eða húfur.“

Deilið þið þekkingu eða er einhver sem leiðir hópinn og kennir hinum?  „Ég hjálpa þeim eins og ég get og stundum sýni ég þeim kennslumyndbönd af youtube þar er kona sem ég er með í hóp og hún er að útbúa kennslumyndbönd, mjög einfalt og gott. Ég er að fara núna á mánudaginn með uppskrift af einföldu sjali fyrir þær að gera. Ótrúlega gaman hvað þær eru duglegar að hjálpa hverri annarri þegar það þarf og svo liggur þetta náttúrulega misvel fyrir þeim. Í einni af grúbbunum sem við erum með er leyft að prjóna, ein konan okkar er með veikindi í hendi, og getur ekki gert handavinnu þannig að hún les fyrir okkur upp úr annað hvort spora- eða AA bókinni, tvær til þrjár blaðsíður og við tökum spjallið um það sem var verið að lesa. Þeim finnst þetta skemmtilegasta grúppan.“

Garn er orðið dýrt og ekki eiga allir prjóna eða heklunálar í dag. Hafið þið allt sem þið þurfið og ef ekki hvað vantar ykkur mest?  „Það væri mjög gaman ef við ættum eitthvað af garni þannig að ef einhver þeirra hefur ekki tök á að fá aðstoð með að kaupa fyrir sig í byrjun geti gengið í það, og eins vantar verkfæri prjóna og heklunálar. Ég á sjálf ekki mikið meira.“

Þú hefur þegar lýst notalegri stemningu hjá ykkur við upplestur og prjónaskap. En hvað finnst þér best við þetta? „Það sem mér finnst best við þetta er hvað prjónaskapurinn gerir mikið fyrir þær. Það er aukin ró og meiri einbeiting hjá þeim og svo eru þær oft í setustofunni sinni og prjóna saman á kvöldin og seinni partinn. Þær eru að tengjast betur og ná að vera meira saman… sem konur,“ segir Kristbjörg að lokum.

Ef þið eigið afganga af garni, prjóna eða heklunálar sem gætu þegið meiri notkun myndum við hjá Samhjálp gjarnan taka við öllu slíku og koma því til prjónahópsins í Hlaðgerðarkoti.