Skip to main content

Þriðjudaginn 31. janúar fagnaði Samhjálp 50 ára afmæli sínu. Þann dag árið 1973 varð einn stofnenda samtakanna Einar J. Gíslason fimmtugur. Hann fékk þá hugmynd að biðja þá sem hyggðust færa honum afmælisgjafir að hafa þær í formi peninga og láta upphæðina sem safnist renna til stofnunar hjálparsamtaka sem fengju nafnið Samhjálp.  Strax í byrjun söfnuðust 122.000 krónur og áfram var safnað og í mars var upphæðin komin í 400.000 krónur. Þá var hafist handa við að leita að hentugu húsnæði fyrir meðferðarheimili. Mæðrastyrksnefnd Reykjavíkur átti Hlaðgerðarkot í Mosfellsdal og hafði sett húsið á sölu en setti það skilyrði að kaupandinn hyggðist stunda einhvers konar góðgerðastarfsemi. Afmælisgjöf Einars nægði fyrir útborgun í Hlaðgerðarkot. Þar var opnað meðferðarheimili og fyrsti forstöðumaður þess var Georg Viðar Björnsson.  Síðan þá hefur starfstöðvum Samhjálpar fjölgað og í dag reka samtökin, Kaffistofu Samhjálpar þar sem um það bil 350 manns leita daglega og þiggja heitan mat, vinsemd, samveru og hlýju, þrjú áfangaheimili tvö í Reykjavík og eitt í Kópavogi og Nytjamarkað í Hólagarði í Breiðholti. Samtökin eru einnig einn rausnarlegasti gefandi jólagjafa á landinu því árlega er pakkað um það 400 jólagjöfum á skrifstofu Samhjálpar. Þá hefð má rekja til Guðmundu Guðrúnar Sigurðardóttur konu sem á sjötta áratug síðustu aldar hóf að gefa föngum í Reykjavík jólagjafir.

Edda Jónsdóttir framkvæmdastjóri Samhjálpar bauð gesti velkomna.

Guðfinna Helgadóttir formaður stjórnar Samhjálpar ávarpaði samkomuna og fór yfir sögu samtakanna.

Frú Eliza Reid flutti ávarp og þakkaði Samhjálp fyrir ómetanlegt starf.

Dagur Eggertsson borgarstjóri færði Samhjálp blóm í tilfefni dagsins.

Með Degi kom Þórir Kjartansson húsvörður í Ráðhúsi Reykjavíkur en hann er fyrrum skjólstæðingur Samhjálpar og leitaði sér meðferðar í Hlaðgerðarkoti.

SÁÁ færði Samhjálp fallega mynd að gjöf.

Edgar Smári Atlason söng fyrir afmælisgesti.

Sigríður Hrund Pétursdóttir ávarpaði gesti og minnti á gildi þess að vera þakklátur og hafa jákvæðni að leiðarljósi

Magdalena Sigurðardóttir þakkaði Samhjálp lífgjöfina.

Margir góðir gestir heiðruðu Samhjálp með nærveru sinni