Skip to main content

Jaðarhópum mætt með kærleika og fordómaleysi

Saga Samhjálpar spannar nú hálfa öld, en formlegur stofndagur var 31. janúar 1973. Frumkvöðlarnir að stofnun Samhjálpar áttu það sameiginlegt að bera kennsl á þörfina til að mæta jaðarhópum í samfélaginu með kærleika. Þarna ber að nefna gjafir til þeirra sem eru sviptir frelsi, fæði og húsaskjól fyrir þá sem eru án heimilis og að miðla þeirri von sem er fólgin í því að ná bata frá fíknisjúkdómum. Þessi þjónusta Samhjálpar hefur ávallt verið veitt með fordómaleysi og mannkærleika að leiðarljósi. Fyrsta starfsstöð samtakanna var meðferðarheimilið Hlaðgerðarkot í Mosfellsdal sem var opnað árið 1974 og er því elsta starfandi meðferðarheimili landsins. Samhjálp rekur jafnframt þrjú áfangaheimili í Reykjavík og Kópavogi.

Kaffistofa Samhjálpar var fyrst opnuð árið 1981 og var þar framreitt kaffi og meðlæti til að byrja með. Fljótlega varð ljóst að nokkur hópur hafði þörf fyrir heita máltíð og samfélag við aðra. Þörfin fyrir aðstoð hefur aukist jafnt og þétt frá stofnun Samhjálpar. Nefna má að daglega koma allt að 350 manns á Kaffistofu Samhjálpar til að fá heita næringaríka máltíð, og hlýja sér ofurlítið áður en haldið er út á kalda götuna. Stærsta verkefni afmælisársins er að safna fé fyrir nýju húsnæði undir Kaffistofuna. Samhjálp stendur fyrir fjáröflun af ýmsu tagi og rekur m.a. nytjamarkað sem nýlega flutti í Hólagarð í Breiðholti.

Starfsfólk og velunnarar Samhjálpar hafa nú þegar hafið undirbúning afmælisársins og ýmislegt stendur til og fyrst af öllu verður haldið upp á daginn með afmæliskaffi á öllum starfsstöðvum Samhjálpar. En í byrjun afmælisárs viljum við umfram allt þakka landsmönnum stuðninginn í gegnum árin og fagna þeirri velvild og liðveislu sem Samhjálp hefur ávallt notið.