Skip to main content

VIRK Starfsendurhæfingarsjóður var settur á stofn árið 2008 í kjölfar kjarasamninga þar sem Samtök atvinnulífsins og Alþýðusamband Íslands sömdu um nýtt fyrirkomulag starfsendurhæfingar hér á landi. Í byrjun árs 2009 bættust opinberir atvinnurekendur og stéttarfélög opinberra starfsmanna við og þar með varð Virk fyrsta stofnunin sem allir helstu aðilar vinnumarkaðarins stóðu saman að.

Þörfin fyrir þjónustu VIRK reyndist brýn en heildarfjöldi einstaklinga í starfsendurhæfingu jókst um 70% milli áranna 2010 og 2013. Um þessar mundir nýta um 2400 einstaklingar þjónustu VIRK en í lok ársins 2021 höfðu tæplega 19 þúsund einstaklingar leitað til VIRK frá upphafi.

Vigdís Jónsdóttir hagfræðingur er framkvæmdastjóri VIRK. Við settumst niður með Vigdísi og ræddum meðal annars um mikilvægi þess að einstaklingar sem glímt hafa við heilsubrest eigi þess kost að komast í virkni og taka þátt í samfélaginu á nýjan leik.

Aðspurð um aðdraganda þess að hún hóf störf hjá VIRK segir hún að auglýst hafi verið eftir framkvæmdastjóra nýs endurhæfingarsjóðs árið 2008. „Ég sá að ég uppfyllti öll skilyrði og hafði reynslu af því sem var krafist til starfsins. Ég ákvað því að sækja um starfið þó ég væri aðeins hikandi því ég var í góðu starfi. En eftir fyrsta viðtalið var ég heilluð og vissi að þetta var draumastarfið mitt. Mig langaði að geta lagt mitt af mörkum til að bæta lífsgæði fólks og til að geta hjálpað sem þeim sem hafa lent í áföllum eða misst heilsu af ýmsum ástæðum, til að geta tekið þátt í atvinnulífinu á nýjan leik.

„Atvinnuþátttaka er svo mikilvæg. Flestir vilja geta tekið þátt í atvinnulífinu og vinna skapar mörgum hlutverk í lífinu. Í vinnu öðlumst við jafnframt félagsþroska og spreytum okkur í samskiptum við annað fólk.“

Atvinnuþátttaka er svo mikilvæg. Flestir vilja geta tekið þátt í atvinnulífinu og vinna skapar mörgum hlutverk í lífinu. Í vinnu öðlumst við jafnframt félagsþroska og spreytum okkur í samskiptum við annað fólk. Einnig er mörgum mikilvægt að taka þátt í að skapa verðmæti.“

Innsýn í margbreytileika mannlegrar tilveru

„Það besta við starfið mitt er þessi tilfinning að láta gott af sér leiða. Það er líka gott að starfa með frábæru fólki. Ég er búin að vera í þessu starfi í 14 ár og VIRK hefur tekið stakkaskiptum á þeim tíma. Til að byrja með var ég ein en nú eru starfsfólk og ráðgjafar Virk yfir 100 manns. Þetta er stór og flókinn rekstur. Flækjustigið endurspeglast í því að fólkið sem leitar til okkar er að fást við flóknar áskoranir. Mér hefur alltaf þótt gaman í starfi mínu sem framkvæmdastjóri Virk en eðlilega hefur starfið líka stundum reynt á og verið krefjandi.

Ég hef lært mikið sem stjórnandi í starfi mínu hjá VIRK. Mest hef ég lært þegar ég hef misstigið mig og þannig er það oft í lífinu. Það er tækifæri til vaxtar þegar við þurfum að taka afstöðu til þess hvernig við viljum gera hlutina. Auk þess hef ég fengið ómetanlega innsýn inn í margbreytileika mannlegrar tilveru og starfið hefur í raun breytt sýn minni á lífið. Ég hef meiri skilning og þroska núna en þegar ég byrjaði fyrir 14 árum síðan.“

Einstaklingsbundin endurhæfingarúrræði

VIRK er fyrir einstaklinga sem hafa skerta starfsgetu vegna heilsubrests. Heilsubresturinn getur verið af ýmsum ástæðum. Endurhæfingarúrræðin eru byggð upp í samræmi við það. Fólk þarf að vilja fara út á vinnumarkaðinn og vera tilbúið til að taka þátt í skipulögðum og fjölbreyttum úrræðum í samráði við ráðgjafa sinn.

„Fólk sem leitar til okkar er á öllum aldri, úr öllum starfsstéttum og öllum geirum samfélagsins. Það eru ýmsar áskoranir að baki – alls ekki alltaf kulnun. Fólk getur hafa lent í áföllum, slysum eða líkamlegum veikindum jafnt sem andlegum.

Það þarf að vera staðfestur heilsubrestur til að fólk komist að hjá VIRK. Fólk þarf að vera tilbúið í ákveðna þátttöku og virkni til undirbúnings til þátttöku á vinnumarkaði. Í einhverjum tilfellum hefst atvinnuþátttakan að hluta til sem hluti af endurhæfingaráætlun en í öðrum tilfellum þarf fólk lengri tíma til aðlögunar.

Það eru gerðar miklar kröfur í starfsendurhæfingunni hjá VIRK sem hentar ekki öllum. Við metum það í hverju og einu tilfelli hvort VIRK henti fólki eða hvort önnur úrræði séu betri fyrir það. Það eru ýmis úrræði í boði og í sumum tilfellum vísum við fólki annað til að byrja með áður en þau koma til okkar.

Við förum með allar upplýsingar sem trúnaðarmál og ég hef til að mynda ekki aðgang að upplýsingum um það hverjir eru hjá VIRK. Ég veit ekki hvaða einstaklingar nýta þjónustuna heldur einbeiti mér að stóru stefnumálunum,“ segir Vigdís.

„Það eru gerðar miklar kröfur í starfsendurhæfingunni hjá VIRK sem hentar ekki öllum. Við metum það í hverju og einu tilfelli hvort VIRK henti fólki eða hvort önnur úrræði séu betri fyrir það.“

Markmiðið að einstaklingurinn fái að blómstra

„Okkar megin verkefni er að veita einstaklingum starfsendurhæfingu sem hafa misst starfsgetu í kjölfar andlegra eða líkamlegra veikinda eða áfalla. Fólk fer til læknis, fær tilvísun og fær svo tíma hjá ráðgjafa VIRK. Skilyrði fyrir þátttöku er vilji til að taka þátt í atvinnulífinu, hvort sem það er að nýju í kjölfar veikinda eða í fyrsta skipti. Ráðgjafar eru sérþjálfaðir sérfræðingar sem meta með einstaklingnum hvaða þjónustu þarf að kaupa til að undirbúa fólk til atvinnuþátttöku. Endurhæfingaráætlun er alltaf einstaklingsmiðuð og margir þeirra sem hafa nýtt sér VIRK tala um að það skipti miklu máli að þú hefur einn tengilið í gegnum allt ferlið. Þannig myndast tengsl sem breyta heilmiklu.

Við bjóðum ýmis fagleg úrræði með það að markmiði að hver og einn einstaklingur fái að blómstra á eigin forsendum. Árangur af starfseminni er ótvíræður en milli 70 og 80% þeirra sem leita til okkar eru virk í lok starfsendurhæfingar og fara í vinnu, atvinnuleit eða nám,“ segir Vigdís að lokum.