Skip to main content

Nytjamarkaður Samhjálpar á sér langa sögu og þar hefur rekið á fjörur margra alls kyns fjársjóði. Um áramótin flutti markaðurinn úr húsnæðinu í Ármúla 11 og upp í Hólagarð. Þar er nú unnið hörðum höndum að því að breyta húsnæðinu og stefnt að því að opna um miðjan mánuðinn. Að því tilefni skulum við rifja upp viðtal við Helgu Pálsdóttur úr októberblaði Samhjálpar.

„Helga Pálsdóttir hefur verið verkefnisstjóri Markaðarins um árabil. Hún þekkir rekstur nytjamarkaða inn og út enda starfaði hún fyrir Rauða krossinn áður en hún kom til Samhjálpar. Helga segir marga fasta viðskiptavini heimsækja Markaðinn reglulega og að það skapi heimilislega stemmningu

Verslingar í framlínunni

Margir af sjálfboðaliðum nytjamarkaðarins eru samstúdentar Helgu úr Versló. Það er oft glatt á hjalla þegar þær skólasysturnar flokka fatnað, dót og stilla fram því sem talið er söluvænt. Meðal þeirra er bókasafnsfræðingur sem sér um að flokka bækurnar.  Nýlegar þýddar spennusögur í vasabroti auk sjálfshjálparbóka eru vinsælar svo ekki sé minnst á ljóðabækur og listaverkabækur. Hún segir að mest seljist af fatnaði og skart sé einnig vinsælt.

Aldrei nóg af góðum fatnaði

Helga segir aldrei vera nóg af góðum fatnaði. „Markaðurinn hefur þróast í hálfgerða fataverslun undanfarið enda berst mest af fatnaði ti okkar.  Allur góður fatnaður selst samstundis og við önnum  ekki eftirspurn. Það er mikil sala á herrafatnaði og vantar sérstaklega skó, buxur og yfirhafnir þessa dagana. Allur kuldafatnaðir er einnig vel þeginn nú þegar veturinn er í nánd. Við tökum auðvitað við öðru líka eins og skrautmunum, vefnaðarvöru ofl. Ég vil nota tækifærið og auglýsa hér með eftir fatnaði. Við kunnum mjög vel að meta að fá hreinan og heilan fatnað sem hægt er að setja beint í sölu,“ segir Helga að lokum.

Við hlökkum til að taka á móti gömlum viðskiptavinum á nýjum stað og fögnum alltaf nýjum. Ekki má gleyma að nytjamarkaðir eru frábær leið til að endurnýta eigulega muni og fatnað. Þeir vinna gegn sóun og gefa þeim sem hafa minna handa á milli færi á að gera góð kaup.