Skip to main content

Hver einasti maður er með kort í hjarta sínu af eigin landi og ekkert mun nokkru sinni leyfa honum að gleyma því korti. Eitthvað á þessa leið má þýða setningu úr bók Alexanders McCall Smith, Kvenspæjarastofa númer eitt, og sömu tilfinningu tjáði Stephan G. Stephansson í ljóðinu Þótt þú langförull legðir. Og það er mikill sannleikur í þessu fólginn. Fólk binst landslagi, stöðum og húsum tilfinningaböndum. Þess vegna skiptir umhverfi miklu máli þegar kemur að lækningu og lífsgæðum.

Hamingjan kemur vissulega innan frá en það að njóta þess að horfa á fallegt umhverfi eða landslag getur vakið djúpa og innilega gleðitilfinningu sem endist lengi. Útsýni yfir fallegan dal úr glugga, blátt hafið, aldan gjálfrandi við strönd, niðandi lækur í næsta nágrenni, blóm í beði, pottablóm í glugga eða villt smáblóm í íslenskum móa. Allt þetta er uppspretta ánægju.

Rannsóknir hafa einnig sýnt að menn sækja sér orku og endurnýjaðan kraft í villta náttúru. Gönguferðir um skóga, fjöll eða strendur eru meðal þess sem flestir segja að gefi þeim slökun, ró og velsæld að loknum erfiðum vinnudegi. Að gefa sér tíma til að ná hvíld á þennan hátt bætir einbeitingu, dregur úr streitu og örvar upptöku C- og D-vítamíns í líkamanum. Útivera örvar einnig ónæmiskerfið. Ofannefndir eru líka þeir staðir sem flestir heimsækja í huganum í slökunarástandi. Á sama hátt er algengast að fólk tiltaki háar byggingar, dökk steinsteypumannvirki, þröngar götur og yfirgefin hús sem einna mest ógnvekjandi staði sem það þekki.

Ást á vatni virðist innbyggð í manninn og nánast allir njóta þess að vera í nágrenni við vatn, hvort sem það er sjór, tjörn, á, lækur, fljót eða gosbrunnur. Gjálfur í vatni er róandi, enda er það meðal þeirra hljóða sem fóstur nemur umlukið legvatni í móðurkviði. Að hafa yfirsýn yfir vatn skapar einnig hugarró og hjá mörgum öryggistilfinningu.

Þunglyndi og bústaðir

Á undanförnum árum hafa menn áttað sig á að ýmsir þættir í umhverfi fólks og aðstæðum eru líklegir til að ýta undir þunglyndi. Rannsóknir á sjúklingum á spítölum sýndu til að mynda að þeir sem voru í björtum herbergjum, umluktir hlýlegum litum og fallegri list, náðu skjótar bata en hinir. Hið sama gilti um hjúkrunar- og dvalarheimili; því heimilislegri og notalegri sem staðirnir voru, því betur leið þeim sem þar dvöldu. Á hinn bóginn voru þunglyndi og alvarlegir líkamlegir heilsubrestir mun algengari meðal fólks sem bjó í stórum íbúðasamstæðum þar sem ekkert gladdi augað eða veitti hvíld frá endalausri grárri steinsteypu.

Í arkitektúr gleðja bogalínur, skraut eða uppbrot frá kassalaga einföldum veggjum augu fólks og eru meðal þess sem vekja vellíðan. Garðar inni á milli eða í miðju blokkahverfa geta veitt íbúum ánægju og skapað tækifæri til að mynda félagsleg tengsl ef þeir eru rétt hannaðir. Þá þykja litlir blettir með bekkjum eða annarri aðstöðu til að setjast og njóta áhrifaríkastir.

Til að bregðast við þessu hafa sprottið upp hreyfingar sjálfboðaliða um allan heim, fólk sem fer inn á vanrækta og yfirgefna bletti í borgum og plantar þar blómum og jurtum og skapar vinalegar vinjar í borgarlandslaginu. Stundum hefur einn slíkur staður orðið kveikja að viðsnúningi í glæpatíðni og skipt sköpum um líðan íbúa í heilu hverfi. Svokallaðir gróðurveggir eru líka að verða algengari í teikningum arkitekta, en þá er veggur eða hluti úr vegg í byggingu með innbyggðum pottum undir jarðveg og í þá plantað jurtum. Mosaveggurinn á Ráðhúsi Reykjavíkur væri dæmi um slíkan vegg þótt erlendis sé allt frá litlum blómum upp í nokkuð stór tré meðal þess sem þrífst á slíkum vegg. Hér er byggt á þeirri þekkingu að allar grænar jurtir skapi aukna velsæld hjá fólki og skapi ró. Ljóstillífun plantna hefur svo einnig jákvæð áhrif á loftslag og umhverfi.

Gleði og ánægja

Litir og listaverk hafa sömuleiðis mikil áhrif á það hvernig okkur líður. Sérfræðingar skipta velsæld upp í nokkur stig; gleði og kátína væri fyrsta stigið. Góðar tilfinningar sem valda því að við brosum og hlæjum og líður vel, en þær vara oftast skamma stund. Ánægja væri næsta stig, en hún varir lengur, er ögn kyrrari tilfinning en gleðin en skapar þægilega líðan í lengri tíma. Sæla væri þriðja stigið, en þá gagntekur manneskjuna ljúf og þægileg tilfinning sem getur varað lengi. Hamingja er svo það stig þegar maðurinn finnur innra með sér frið og lífsfyllingu.

Umhverfi okkar getur veitt fyrstu fjórar tilfinningarnar og nært þær daglega. Gleði og kátína vakna þegar þú rekst á falleg blóm í almenningsgarði eða horfir á glæsilega byggingu í nágrenni við þig. Ánægja kviknar við að koma sér fyrir í borg eða bæ sem þú kannt við og í hverfi sem þér líkar. Þegar síðan kemur að því að búa sér heimili eftir eigin smekk og þörfum er það til dæmis líklegt til að skapa sælutilfinningu í hvert sinn sem manneskjan gengur inn heima hjá sér.

Fegurð er líkleg til að næra manneskjur og allir þarfnast fegurðar í lífi sínu. Bjartir litir gleðja meira en dökkir og þeir gefa orku. Kertaljós, arineldur, flugeldar, konfettí og litríkir borðar gera það sama. Allt þetta tengist góðum minningum hjá flestum og það er eitthvað heillandi við þessi fyrirbæri sem höfðar til allra manna. Hið sama gildir um grænar grasflatir, litrík blómabeð, skjólsæl tré, stjörnurnar og norðurljósin. Því oftar sem við leyfum þessum fyrirbærum að vekja með okkur gleði, því líklegri er ánægjukenndin til að kvikna og endast lengi.

Formin

Ákveðin form eru líka meðal þess sem getur breytt líðan og skapað ánægju. Hringlaga form eru til dæmis mun líklegri til að vekja gleði hjá fólki en ferningar og ferhyrningar. Hringurinn hefur skýra skírskotun í bernsku okkar þegar við lékum okkur að boltum, blésum sápukúlur, sveifluðum jójói og nutum þess að hjóla. Smekkur okkar breytist líka með árunum og eftir aðstæðum. Fólk getur verið hrifið af líflegum litum á ákveðnum tímabilum en kosið helst einfaldleika og hvítt og svart á öðrum. Allir reiða sig á skilningarvitin fimm og gegnum þau upplifum við umhverfið til fulls.

Litir, form, lykt, snerting, bragð og hljóð eru allt þættir sem skapa ýmist jákvæða eða neikvæða upplifun og ýta þar með undir gleði, ánægju, sælu og hamingju manna. En sumir heimspekingar eru þess fullvissir að enn einn þáttur komi þar sterkt inn í, en það er andleg reynsla eða tengsl við staði. Það mætti svo sem orða það svo að hann færi eftir hvernig umhverfið talaði til sálarinnar. Líklega hafa allir upplifað að ganga um stað og kuldahrollur fer um mann. Einhver ónotatilfinning fylgir sumum húsum og íbúðum en aðrir virðast fullir af ljósi, hlýju og bjóða mann velkominn. Það er alltaf mikilvægt að hlusta á innsæið og vera meðvitaður um viðbrögð sín gagnvart stöðum og notfæra sér þá sem veita fróun en forðast hina. Þessi tilfinningatengda upplifun af umhverfinu gerir það einnig að verkum að það er mikilvægt að fólk hafi val um hvar það býr og í hvers konar húsnæði.