Sjálfbærni er orð sem hefur hefur fengið byr undir báða vængi á síðastliðnum árum og er gjarnan notað í samhengi við ýmis önnur orð sem getur valdið misskilningi. Segja má að orðið sjálfbærni hafi öðlast sjálfstætt líf og þá oft í samhengi við önnur hugtök eins og til dæmis sjálfbær fyrirtækjarekstur. En hvað þýðir þetta orð sjálfbærni í raun og veru?
Hugmyndin að baki sjálfbærni
Grunnhugmyndin að baki orðinu sjálfbærni á rætur að rekja til skógræktar. En í skógrækt er sú regla höfð til grundvallar að planta tré í staðinn fyrir hvert tré sem er fellt.
Notkun orðsins sjálfbærni í samhengi við þróun, eða orðasambandið sjálfbær þróun, má rekja til ársins 1987 þegar sérstök nefnd á vegum Sameinuðu þjóðanna kom að útgáfu skýrslu sem ber yfirskriftina Okkar sameiginlega framtíð (e. Our Common Future). Skýrslan er einnig þekkt undir nafninu Brundtland skýrslan, sem er tilvísun í eftirnafn Gro Harlem Brundtland fyrrverandi forsætisráðherra Noregs og fyrrum aðalritara Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (e. World Health Organization), sem fór fyrir nefndinni.
Brundtland skýrslan beindi sjónum að nauðsyn þess að þjóðir heims tækju saman höndum og brýnt væri að ná framförum í átt að sjálfbærri efnahagslegri þróun, sem gæti átt sér stað án þess að ganga á náttúruauðlindir eða skaða umhverfið. Skýrslan fjallaði ekki aðeins um hlutverk stjórnvalda, heldur einnig hlut fyrirtækja og einstaklinga sem væru lykillinn að sjálfbærri þróun.
Sjálfbærni skilgreind
„Sjálfbær þróun er þróun sem mætir þörfum nútímans án þess að skerða möguleika komandi kynslóða á að mæta sínum þörfum.“
Þessi setning inniheldur skilgreiningu Sameinuðu þjóðanna á sjálfbærri þróun og á ættir að rekja til fyrrnefndrar Brundtland skýrslu og til Gro Harlem Brundtland sjálfrar, sem oft er nefnd móðir sjálfbærrar þróunar.
Hugtakið sjálfbærni felur þarna í sér umhverfislega, félagslega og efnahagslega þætti, einnig þekktir sem þrjár stoðir sjálfbærrar þróunar. Í umræddri skýrslu er að auki vísað til þess að hugtakið sjálfbær þróun feli í sér takmarkanir. Ekki algildar takmarkanir, heldur takmarkanir sem núverandi tækni- og samfélagsskipulag hafi sett á umhverfisauðlindir og getu lífríkisins til að þola þau áhrif sem hljótist af mannanna völdum. Í skýrslunni segir jafnframt að bæði tækni og félaglegu skipulagi sé hægt að stjórna með það að markmiði að rýmka fyrir nýjum tíma hagvaxtar.
Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna
Heimsmarkmiðin eru hluti af sjálfbærniáætlun Sameinuðu þjóðanna fyrir árið 2030 sem ber yfirskriftina: Umbreytum heiminum (e. Transforming our world).
Heimsmarkmiðin ásamt sjálfbærniáætluninni voru sett fram árið 2015. Þar er meðal annars kveðið á um að binda enda á fátækt og hungursneyð; stuðla að heilbrigðu líferni og vellíðan; stuðla að viðvarandi sjálfbærum hagvexti og mannsæmandi atvinnutækifærum fyrir alla; og draga úr ójöfnuði.
Í heild sinni eru Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna samansett úr 17 markmiðum og 169 undirmarkmiðum þeirra. Skoðum þetta nánar. Hvert og eitt heimsmarkmið hefur undirmarkmið sem eru ýmist tilgreind með tölustöfum eða bókstöfum. Það er ákveðinn munur á þessum undirmarkmiðum eftir því hvort þau eru tölumerkt eða merkt með bókstöfum.
Ef við tökum sjötta markmiðið sem dæmi, þá eru undirmarkmiðin átta talsins. Fyrstu sex þeirra eru svokölluð útkomu-markmið og eru þau eru merkt 6.1 til 6.6. Síðustu tvö undirmarkmiðin eru merkt 6.a og 6.b en þau lýsa því hvernig er hægt að koma þessum markmiðum til leiðar.
Á vettvangi Sameinuðu þjóðanna hefur auk þess verið samþykkt að fylgjast með þróun og framförum sem miða í átt að heimsmarkmiðunum með 232 vísum. Ýmis aðildarríki Sþ hafa tekið saman upplýsingar um vísana. Áhugasamir geta nálgast upplýsingar um vísana í íslensku samhengi á slóðinni: https://visar.hagstofa.is/heimsmarkmidin/
Hnattrænn samningur um þróun
Það mætti lýsa Heimsmarkmiðunum sem hnattrænum samningi um þróun allstaðar í heiminum. Forveri Heimsmarkmiðanna – Þúsaldarmarkmið Sameinuðu þjóðanna voru markmið sem fengu mun minni kynningu í vestrænum heimi en Heimsmarkmiðin hafa fengið, enda voru þau takmarkaðri að umfangi og meira miðuð að aðildarríkjum Sameinuðu þjóðanna og reyndar þeim minna þróuðu sérstaklega.
Heimsmarkmiðin eru frábrugðin þúsaldarmarkmiðunum að því leyti að þau tala ekki aðeins til aðildarríkja Sameinuðu þjóðanna, heldur einnig til fyrirtækja og einstaklinga. Þau eru nokkurs konar óður til framtíðarinnar sem við viljum, sem er reyndar tilvísun í yfirskrift skýrslunnar (e. The Future We Want) sem kom út eftir loftslagsráðstefnuna í Ríó árið 2012 en þar er að finna grunnhugsunina að baki Heimsmarkmiðunum fyrir þá sem hafa áhuga á að dýpka skilning sinn.
En skoðum nú Heimsmarkmiðin hvert fyrir sig.
- Markmið 1 – Útrýma fátækt í allri sinni mynd alls staðar
- Markmið 2 – Útrýma hungri, tryggja fæðuöryggi og bætta næringu og stuðla að sjálfbærum landbúnaði
- Markmið 3 – Stuðla að heilbrigðu líferni og vellíðan fyrir alla frá vöggu til grafar
- Markmið 4 – Tryggja jafnan aðgang allra að góðri menntun og stuðla að tækifærum allra til náms alla ævi
- Markmið 5 – Jafnrétti kynjanna verði tryggt og völd allra kvenna og stúlkna efld
- Markmið 6 – Tryggja aðgengi að og sjálfbæra nýtingu, allra á hreinu vatni og salernisaðstöðu
- Markmið 7 – Tryggja öllum aðgang að öruggri og sjálfbærri orku á viðráðanlegu verði
- Markmið 8 – Stuðla að viðvarandi sjálfbærum hagvexti og arðbærum og mannsæmandi atvinnutækifærum fyrir alla
- Markmið 9 – Byggja upp viðnámsþolna innviði fyrir alla, stuðla að sjálfbærri iðnvæðingu og hlúa að nýsköpun
- Markmið 10 – Draga úr ójöfnuði innan og á milli landa
- Markmið 11 – Gera borgir og íbúðasvæði öllum mönnum auðnotuð, örugg, viðnámsþolin og sjálfbær
- Markmið 12 – Sjálfbær neyslu- og framleiðslumynstur verði tryggð
- Markmið 13 – Grípa til bráðra aðgerða gegn loftslagsbreytingum og áhrifum þeirra
- Markmið 14 – Vernda og nýta hafið og auðlindir þess á sjálfbæran hátt í því skyni að stuðla að sjálfbærri þróun
- Markmið 15 – Vernda, endurheimta og stuðla að sjálfbærri nýtingu vistkerfa á landi, sjálfbærri stjórnun skógarauðlindarinnar, berjast gegn eyðimerkurmyndun, stöðva jarðvegseyðingu og endurheimta landgæði og sporna við hnignun líffræðilegrar fjölbreytni
- Markmið 16 – Stuðla að friðsælum og sjálfbærum samfélögum fyrir alla menn, tryggja öllum jafnan aðgang að réttarkerfi og byggja upp skilvirkar og ábyrgar stofnanir fyrir alla menn á öllum sviðum
- Markmið 17 – Blása lífi í alþjóðlegt samstarf um sjálfbæra þróun og grípa til aðgerða
Heimsmarkmiðin og starfsemi Samhjálpar
Nokkur heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna tengjast starfsemi Samhjálp með beinum hætti.
1 Útrýma fátækt
2 Útrýma hungri, tryggja fæðuöryggi og bætta næringu
3 Stuðla að heilbrigðu líferni og vellíðan fyrir alla frá vöggu til grafar.
Undirmarkmið 3.5 tengist starfsemi okkar sérstaklega en það er „að efla forvarnir og meðferð vegna misnotkunar vímuefna, þar á meðal fíkniefna og áfengis.“ Þar koma meðferðarheimilið Hlaðgerðarkot í Mosfellsdal, áfangaheimilið Brú og áfanga- og stuðningsheimilið M18 í Reykjavík og áfanga- og stuðningsheimilið D27 í Kópavogi til sögunnar.
- Markmið 10 – Draga úr ójöfnuði innan og á milli landa
- Markmið 11 – Sjálfbærar borgir og samfélög
- Markmið 16 – Stuðla að friðsælum og sjálfbærum samfélögum fyrir alla menn,
- Markmið 17 – Blása lífi í alþjóðlegt samstarf um sjálfbæra þróun og grípa til aðgerða
Meira verður fjallað um heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna og tengingu þeirra við starfsemi Samhjálpar í Samhjálparblaðinu á næstunni.