Skip to main content

Tryggvi K. Magnússon veitir áfanga- og stuðningsheimilum Samhjálpar við Miklubraut í Reykjavík og Dalbrekku í Kópavogi forstöðu. Tryggvi er einn þeirra sem gefur sér alltaf tíma til að spyrja fólk hvernig því líður enda er náungakærleikur helsta forsenda þess að hann elskar vinnuna sína hjá Samhjálp. Við spurðum Tryggva um uppáhalds iðjuna og fengum þessi svör:

Gefandi að fylgjast með fólki styrkjast í batanum

„Það er alltaf eitthvað eitthvað uppbyggilegt að gerast og mest finnst mér gaman að fylgjast með skjólstæðingum eflast og styrkjast í sínu bataferli með þeim verkfærum sem bent er á. Eins er oft afar gaman að eiga samtal við þá sem til okkar leita. Fólk kemur úr ýmsum áttum hefur margháttaða reynslu og er hvert og eitt sérstakt á sinn, í jákvæðri merkingu. Þetta getur verið mjög gott fyrir mig sem einstakling til að öðlast meiri skilning og víðari sýn á lífið. Mest er svo í uppáhaldi þegar einhver hjá okkur útskrifast og getur tekist á við lífið. Það er svo gaman að upplifa sýnilegan árangur. Reyndar geta verið blendar tilfinningar þegar manneskja fer sem maður hefur umgengist og myndað ákveðin tengsl við en það er gangur lífsins,“ segir Tryggvi.

Notað efni öðlast nýtt líf

Aðspurður segist Tryggvi hafa gaman af ýmsu. „Auk bóklesturs eru smíðar mér mikið áhugamál og ég hef komið mér upp góðri aðstöðu til smíða. Þar á ég töluvert af tækjum og tólum og er víst með svokallaða verkfæradellu. Ég fæ oft mjög skemmtilegar heimsóknir á verkstæðið og það eru svona sérvitrir karlar eins og ég sem koma til mín.

Mjög gaman er að smíða leikföng og sérstaklega ef brúkað er notað efni sem öðlast þannig nýtt líf. Það er með ólíkindum hve miklu er fargað af nothæfu efni og mætti skrifa um það langar ritgerðir hve sóun er mikil á mörgum sviðum.

Einnig hef ég mjög gaman af að renna hluti eins og skálar og fleira. Það getur verið flott að líma saman mismunandi liti og trjátegundir því þá koma skemmtileg mynstur. Ég kaupi aldrei timbur þegar ég smíða fyrir sjálfan mig heldur safna ég spýtum. Svo hef ég verið heppinn með það að vinir mínir hafa líka gefið mér spýtur og bent mér á hvar timbur er að hafa. Þetta er mér mikil ástríða og ánægja. Ég hef líka gaman af að smíða úr járni þó ég geri ekki mjög mikið af því. Þessi starfi hefur veitt mér ómælda ánægju og hugarró. Kannski mætti segja að smíðarnar bjargi stundum andlegri heilsu minni,“ segir Tryggvi.

Hænsnarækt og matjurtir

Hann segist hafa gaman af hænsnarækt og hefur verið með hænur í bakgarðinum við áfangaheimilið M-18 í nokkur ár. „Hænurnar sjá heimilinu fyrir eggjum svo ekki þarf að kaupa þau. Eins er hægt að nýta allskonar matarleifar og slíkt með varpfóðrinu sem skapar einskonar hringrás. Sá úrgangur sem ekki er nýttur, fer í moltu og þaðan fer innihaldið svo í matjurtagarðinn sem einnig er á M-18. Auk þess nýtist hænsaskíturinn sem áburður í matjurtagarðinn svo þetta er sannkölluð sjálfbærni,“ segir Tryggvi sem hefur útbúið matjurtagarð á M-18 þar sem er meðal annars ræktað salat, hnúðkál, rófur, kartöflur og fleira. Tryggvi segir ræktunina skemmtilega iðju þó svo að sniglar og annað stríði honum stundum. Hann nefnir auk þess að ræktunin sé fjárhagslega hagkvæm auk þess sem gott sé að borða grænmeti beint úr garðinum.

Vísir að aukinni sjálfbærni í Hlaðgerðarkoti

Tryggvi hefur smíðað ýmislegt fyrir utan leikföng og má þar nefna lítil hús og þónokkurn fjölda hænsnahúsa. Eitt þeirra stendur í Hlaðgerðarkoti, meðferðarheimili Samhjálpar í Mosfellsbæ. Þar hefur Tryggvi átt frumkvæði að gerð lítils hænsnabús. „Ég hef hjálpað til eftir bestu getu með búskapinn og meðal annars haft umsjón með að fjölga í hænsnastofninum, sem er orðinn nokkuð blómlegur eftir vel heppnaða útungun í sumar. Eins hef ég hjálpað til við garðrækt í Hlaðgerðarkoti, mér til skemmtunar,“ segir Tryggvi sem alltaf er boðinn og búinn að veita áhugasömum ráð um ræktun enda býr hann að áralangri reynslu og er auk þess búfræðingur að mennt.

Hundar sem hlaupa hvor í sína áttina

Tryggvi á tvo hunda sem hann segir að þurfi mikla hreyfingu. Auk þess að ganga mikið með hundana fer Tryggvi gjarnan með þá í hjólatúra. „Stundum vilja þeir ekki fara í sömu áttina og þá getur tognað svolítið úr mér,“ segir Tryggvi sposkur á svip.