Skip to main content

Hátíð ljóss og friðar færir okkur margvísleg tækifæri til að gleðjast og auðsýna þakklæti í verki. Mörg okkar gefa og þiggja jólagjafir, gleðjast með vinum og fjölskyldu og njóta jólafriðarins í hvívetna. Þó erum við ekki öll svo heppin að eiga heimili til að skreyta eða mat til að elda. Þess vegna er svo mikilvægt að muna eftir þakklætinu mitt í jólastressinu.

Þakklæti til þeirra sem við berum kærleika til 

Jólahátíðin er afmælishátíð frelsarans. Við minnumst fæðingar hans og þess að hann kom í heiminn sem manneskja af holdi og blóði sem seinna dó fyrir syndir mannkyns. Jólagjafirnar eru því í raun birtingarmynd af afmælisgjöfum til jesúbarnsins sem við gefum hvert öðru til minningar um fæðingu hans.

Nýlega las undirrituð óvenjulega samantekt í Huffington Post þar sem lesendur voru hvattir til að gefa þeim sem ættu allt þakklæti í jólagjöf.

Á hversdagslegri nótum brjóta nú margir hugann um það hvaða gjöf beri að kaupa handa hverjum. Fjölmiðlar taka gjarnan saman hugmyndir að gjöfum fyrir þá sem eiga allt. Nýlega las undirrituð óvenjulega samantekt í Huffington Post þar sem lesendur voru hvattir til að gefa þeim sem ættu allt þakklæti í jólagjöf. Þar hvatti greinarhöfundur lesendur til að skrifa niður það sem viðkomandi væri þakklátur fyrir í fari hvers og eins ástvinar sem til stæði að gefa jólagjöf og miðla svo þakklætinu til viðkomandi í stað þess að gefa hefðbundna jólagjöf. Þetta þykir mér afbragðshugmynd, sér í lagi á tímum þar sem neysluhyggjan fer nærri því að bera okkur ofurliði. Tel ég víst að flestum þætti mikið í það varið að heyra hvað ástvinum þykir þakkarvert í fari okkar. Auk þess er þetta afar umhverfisvæn gjöf.

Það sem er þakkarvert

Valdimar Briem orti texta við erlent lag sem oft er sungið um áramót og ber yfirskriftina: Nú árið er liðið. Í öðru erindinu spyr textaskáldið: „En hvers er að minnast og hvað er það þá, sem helst skal í minningu geyma?“ Þetta er góð spurning, sem hollt er að spyrja sig á þeim tímamótum sem jól og áramót færa okkur. Mörg notum við tækifærið þegar við skrifum jólakort, sendum rafræn jólabréf eða skrifum færslu á samfélagsmiðla, til að minnast þess sem helst hefur borið á daga okkar og fjölskyldunnar á árinu sem er að líða. Skrifin eru einnig tilvalið tækifæri til að tjá þakklæti fyrir góðar stundir og annað sem er þakkarvert.

Heimur batnandi fer

Í bókinni Full af staðreyndum (e. Factfulness) eftir Hans Rosling og félaga er fjallað um tíu ástæður fyrir því að við höfum flest hver rangt fyrir okkur um heiminn og hvers vegna staðan er almennt betri en við höldum. Í bókinni er að finna spurningalista þar sem spurt er út í staðreyndir um heiminn. Spurningarnar hafa verið lagðar fyrir fjölda fólks víða um heim og í ljós hefur komið að fólk dregur almennt rangar ályktanir. Þegar spurt er um hlutfall stúlkna sem ljúka skólagöngu í lágtekjulöndum og þróun mannfjölda í heiminum telja velflestir að staðan sé verri en hún er í raun. Rosling bendir á að fjölmiðlar bendi oftar á neikvæðar hliðar mála en það sem vel er gert.

Í bókinni Full af staðreyndum (e. Factfulness) eftir Hans Rosling og félaga er fjallað um tíu ástæður fyrir því að við höfum flest hver rangt fyrir okkur um heiminn og hvers vegna staðan er almennt betri en við höldum.

Fræðifólk á sviði þakklætisrannsókna hefur bent á að þegar við beinum sjónum að þakklæti getum við ekki verið neikvæð á sama tíma. Getur verið að það felist raunverulegt tækifæri í að taka eftir því góða og því sem er þakkarvert? Tökum höndum saman um að gera heiminn að betri stað – því þakklæti bætir allra hag.

Bækur um þakklæti

Jim Stovall skrifaði merkilega bók sem heitir á frummálinu The Ultimate Gift og kom út í íslenskri þýðingu undir yfirskriftinni Allra besta gjöfin. Bókin er metsölubók um allan heim og hefur verið þýdd á fjölda tungumála. Hún fjallar um ungan mann sem stendur á krossgötum þegar frændi hans skorar á hann með óvenjulegum hætti. Bókin lýsir ferðalagi unga mannsins í leit að svörum við mörgum af mest aðkallandi spurningum lífsins. Lestur bókarinnar veitir lesendum tækifæri til að íhuga tilgang lífsins og gildi handan veraldlegra gæða. Þar spilar þakklætið mikilvæga rullu. Bókin er fáanleg á hljóðbók á íslensku auk þess sem hún er til á mörgum bókasöfnum.

Kristín Jóna Kristjónsdóttir, verslunarstjóri Verslunarinnar Jötu, mælir með að fylgjast með efni frá Morgan Harper Nichols, fyrir þá sem vilja lesa sig til um þakklæti. „Við eigum eina bók eftir hana sem heitir All along you were blooming. Hún er líka með hlaðvarp með stuttum hugleiðingum sem er virkilega flott. Það heitir einfaldlega The Morgan Harper Nichols Show. Hún er líka með virkilega flott instagram @morganharpernichols,“ segir Kristín Jóna.