Þegar jólahafurinn er kominn upp fyrir framan IKEA og eitt og eitt jólaljós tekið að tindra í gluggum húsa tekur Svava Ásgeirsdóttir fram jólaskrautið og gerir skrifstofuna sína jólalega. Hún hefur ekki alltaf verið jólabarn en fann sína leið til að halda jólin hátíðleg og njóta þeirra.
„Þegar ég var yngri lituðust jólin af stressi og stífri dagskrá jólaboðs eftir jólaboð,“ segir Svava. „Eftir að ég varð fullorðin fékk ég ógeð á öllu sem tengdist jólunum og bauð mig fram í vinnu á aðfangadagskvöld frekar en að halda upp á jólin. En síðustu ár hef ég verið að byggja upp nýjar hefðir sem henta mér og ég nota jólaskrautið og hátíðarstemminguna sem fylgir með til að tengjast jólunum á nýjan leik á mínum forsendum.
Nýju hefðirnar einkennast af rólegheitum og að hafa gaman af lífinu og njóta jólanna með fjölskyldunni. Þegar ég var yngri var allt jólaskraut sett upp í stressi á Þorláksmessu en í dag byrja ég að skreyta strax á fyrsta sunnudegi í aðventu og tek minn tíma við að gera heimilið og skrifstofuna að mínum jólagriðastað. Ég reyni einnig að vera búin að kaupa allar jólagjafir áður en desember gengur í garð svo að jólin snúist alfarið um að njóta í ró og kyrrð. Fyrir mér er gleðin og þakklætið sem fylgir jólunum það besta við jólatímann og ég reyni að tengja sem mest við það.“
Það hefur Svövu tekist og vinnufélagarnir njóta góðs af því að líta við á skrifstofunni hennar, sem er á við nokkurra mínútna hugleiðslu því mjúk birtan, smekklegt skrautið og hlýlegt andrúmsloftið er sannarlega í anda jólanna.