Starfsstöðvar

Þjónusta Samhjálpar

Samhjálp

Samhjálp rekur meðferðarheimili fyrir 30 einstaklinga. Fjögur áfangahús og kaffistofu fyrir þá sem minna mega sín. Á hverri nóttu gista tæplega 90 manns í uppábúnum rúmum á vegum Samhjálpar. Eftirtalin úrræði eru á vegum Samhjálpar. Meðferðaheimilið Hlaðgerðarkot; Áfangahúsið Brú; Áfangahúsið Spor; Áfanga- og stuðningsbýlið M18 og Nýbýlavegi 30; Kaffistofan; Göngudeild - viðtöl; Nytjamarkaður.

Markmið Samhjálpar er að veita bjargir til þeirra einstaklinga sem halloka hafa farið í lífinu, vegna sjúkdóma, fátæktar eða annarra samfélagslegra vandamála, og með því stuðla að velferð og sjálfsbjörg þeirra. Skrifstofa Samhjálpar eru að Hlíðasmara 14, 201 Kópavogi. Þar eru skrifstofur, göngudeild og úthringiver til húsa og þar fer hluti forvarna- og eftirmeðferðarstarfsins fram - starf sem nú á sér 42 ára sögu og hefð í borginni. Samhjálp félagasamtök hafa starfað að góðgerðarmálum og hjálparstafi í rúm fjörutíu ár með góðum árangri og allan þann tíma staðið vaktina fyrir þá aðila sem minna mega sín og hafa átt við áfengis- og vímaefnavanda að stríða.

Skrifstofa Samhjálpar

Skrifstofa Samhjálpar er í Hlíðasmára 14 í Kópavogi. Opið er alla virka daga frá kl. 10-15. Við erum í hverfinu fyrir ofan Smáralind. Samgöngur eru greiðar til okkar úr öllum áttum. Fyrir þá sem nota almenningsvagna þá stoppar leið 24 rétt hjá okkur. Um 5 mínútna ganga er frá stoppistöð til okkar.

Auk skrifstofu er til húsa göngudeildin okkar og símaver Samhjálpar. Við hvetjum áhugasama til að líta við hjá okkur og kynna sér starfið. Hjá okkur er alltaf heitt á könnunni og við bjóðum gesti velkomna.

Hlaðgerðarkot

Meðferðarheimilið Hlaðgerðarkot í Mosfellsdal, elsta nústarfandi meðferðarheimili landsins. Hægt er að hringja og skrá sig í meðferð í síma 566-6148.

Hlaðgerðarkot hefur verið starfrækt frá árinu 1974. Við getum tekið á móti 30 einstaklingum, 20 körlum og 10 konum. Hjá okkur er að staðaldri biðlisti. Í Hlaðgerðarkoti er ekki boðið upp á afeitrun/niðurtröppun. Þeir sem þurfa á slíkri þjónustu að halda, er bent á Landspítalann, deild 33a eða sjúkrahúsið Vog. Meðferðin í Hlaðgerðarkoti tekur þrjá mánuði, en einstaklingar geta dvalið lengur ef þurfa þykir samkvæmt nánara samkomulagi. Fjölmargir einstaklingar hafa farið í gegnum áfengis-og vímuefnameðferð í Hlaðgerðarkoti með góðum árangri. Um helmingur þeirra sem innritast í meðferð eru á aldrinum 18-39 ára. Ásókn eftir að komast að í Hlaðgerðarkot hefur aukist á liðnum árum og biðlistinn lengst.

Kaffistofa Samhjálpar

Matur í boði fyrir þá sem þurfa á því að halda.

Kaffistofa Samhjálpar er í Borgartúni 1a, og er opin alla daga frá kl. 10 - 14 en þar er boðið upp á morgunkaffi, meðlæti og heita máltíð í hádeginu, alla daga ársins, helgar jafnt sem helgidaga. Heimsóknir eru um og yfir 200 á dag allt árið um kring. Um 67 þúsund máltíðir eru gefnar á Kaffistofunni á hverju ári. Því miður er það svo að þótt betur ári nú í þjóðfélaginu hefur ekki dregið úr aðsókn á Kaffistofuna eins og ef til vill mætti búast við. Þvert á móti hefur aðsóknin aukist og hefur þörfin sjaldan verið meiri.

Áfangaheimilið Spor

Einstaklingsherbergi

Á Spori eru 17 einstaklingsherbergi og er hugsað fyrir þá sem eru nýkomnir úr áfengis- og vímuefnameðferð og eiga ekki í önnur hús að venda. Strangar kröfur eru gerðar til umsækjenda varðandi þátttöku í eftirmeðferðarstarfi. Boðið er upp á fundi og einkaviðtöl miðað við þarfir hvers og eins. Dvalargjald er greitt fyrirfram og í upphafi er greitt tryggingargjald. Umsjónarmaður áfangaheimilanna er Tryggvi Magnússon Netfang: afangaheimili@samhjalp.is. Tryggvi er með opna viðtalstíma á fimmtudögum frá kl. 10 til 12 á skrifstofu Samhjálpar að Hlíðasmára 14, 201 Kópavogi.

Áfangaheimilið Brú

Einstaklingsíbúðir

Á áfangaheimilinu Brú eru 19 einstaklingsíbúðir. Til þess að komast að á Brú þurfa umsækjendur að hafa lokið meðferð í Hlaðgerðarkoti eða öðrum meðferðarúrræðum. Almenna reglan er sú að fólk nýkomið úr áfengis- og vímuefnameðferð dvelji á áfangahúsinu Spori fyrstu mánuðina. Alla jafna er fólk nýkomið úr meðferð ekki innritað beint á Brú. Á meðan á dvölinni stendur þurfa íbúar að sækja um nám, vinnu eða nýta sér stuðningsnet sem í boði eru. Markmið þeirrar félagslegu aðhlynningar sem veitt er á áfangaheimilinu er að gera skjólstæðingum kleift að temja sér nýja lífshætti og varanlegt bindindi á eigin ábyrgð. Íbúum er skylt að sækja AA fundi og þá fundi og viðtöl sem eru á vegum Samhjálpar. Samanlagður dvalartími í áfangahúsum Samhjálpar eru tvö ár. Mikilvægt er fyrir íbúa að huga tímanlega að framtíðarlausn í húsnæðismálum sínum.

Áfanga- og stuðningsheimilið M18

Stuðningsheimili fyrir 8 karlmenn

Áfanga- og stuðningsheimilið að Miklubraut 18 er rekið í samvinnu við Félagsþjónustuna í Reykjavík og er heimili fyrir heimilislausa Reykvíkinga. Á heimilinu er pláss fyrir átta karla og hefur hver sitt eigið herbergi, utan einn sem hefur til umráða litla einstaklingsíbúð. Önnur aðstaða er sameiginleg. Heimilið er nokkurskonar áfangaheimili en með miklum stuðningi. Heimilismenn eru í virku sambandi við félagsráðgjafa á vegum borgarinnar. Ásamt því á yfirmaður reglulega fundi og einkaviðtöl við heimilismenn. Markmiðið með heimilinu er að styðja þá einstaklinga sem ekki hafa náð bata eftir hefðbundnum meðferðarúrræðum.

Áfanga- og stuðningsheimilið Nýbýlavegi 30

í Kópavogi er rekið fyrir velferðarsvið Kópavogs og er kynjaskipt.

Þar er pláss fyrir átta einstaklinga og hefur hver sitt eigið herbergi. Önnur aðstaða er sameiginleg. Heimilismenn eru í virku sambandi við félagsráðgjafa á vegum Kópavogsbæjar, ásamt því að yfirmaður og starfsmenn heimilisins eiga reglulega fundi og einkaviðtöl við heimilismenn. Markmiðið með heimilinu er að styðja einstaklingana til að ná tökum á lífi sínu og komast aftur út í daglegt líf.

Nytjamarkaður Samhjálpar

Nytjamarkaður Samhjálpar er í Ármúla 11, 108 Reykjavík. Hann er opinn alla virka daga kl. 11-18 og á laugardögum kl.12-15. Tekið er á móti gjöfum á sama tíma. Hægt er að hringja í síma 842-2030 fyrir nánari upplýsingar. Facebooksíða Nytjamarkaðarins er: http://www.facebook.com/nytjamarkadursamhjalpar Allur ágóði af sölunni rennur til Samhjálparstarfsins.

Á Nytjamarkaðnum kennir ýmissa grasa. Við leggjum áherslu á fatnað og smærri hluti. Hjá okkur er gott úrval af fatnaði og skóm, bæði fyrir börn og fullorðna. Einnig höfum við á boðstólum ýmsilegt til heimilisins, sem og úrval af bókum og tímaritum. Líttu við, sjón er sögu ríkari!

Fjáröflun

Samhjálp reiðir sig á stuðning og velvilja einstaklinga, stofnana og fyrirtækja.

Í Hlíðasmára 14, er rekið símaver. Tilgangur þess er að afla fjár til reksturs samtakanna. Allan ársins hring sinnir símaverið hinum ýmsu fjáröflunarverkefnum og fer hluti af vinnslu Samhjálparblaðsins einnig þar fram. Blaðið kemur út þrisvar á ári.

Göngudeild

Göngudeild - viðtöl

Göngudeild Samhjálpar er til húsa að Hlíðasmára 14. Þar er boðið upp á viðtöl við ráðgjafa. Þjónustan er í boði fyrir þá sem lokið hafa meðferð í Hlaðgerðarkoti, íbúa á áfangaheimilum og öðrum þeim sem telja sig þurfa á aðstoð að halda vegna áfengis- og vímuefnavanda.