Saga byggingaframkvæmda í Hlaðgerðarkoti

Landssöfnun Samhjálpar í samstarfi við 365 miðla ehf. var haldin í Silfurbergi Hörpu og sýnd í beinni útsendingu á Stöð 2 laugardaginn 21. nóvember 2015. Alls söfnuðust um 85 milljónir í söfnuninni. Kostnaður við söfnunina var um 15 milljónir, en Samhjálp hafði fengið nokkur fyrirtæki til að vera kostendur og sjá þannig um þann kostnað. Um 35 milljónir söfnuðust í reiðufé og restin í gjöfum og loforðum um efni þegar að þeim byggingarþætti kæmi. Þá voru einnig gjafir um vinnuframlag. Þann 26. október 2016 var fyrsta skóflustunga að nýbyggingunni tekin. Hana tóku þeir Haraldur Sverrisson bæjarstjóri Mosfellsbæjar og Vörður Leví Traustason framkvæmdastjóri Samhjálpar. Ístak sá um jarðvinnsluna en hluti hennar var gjöf þeirra í landssöfnunarátakinu. 17. desember 2016 voru sökklarnir lagðir niður, en samið hafði verið við Smell-inn frá BmVallá um forsteyptar einingar. Í byrjun janúar 2016 var hafist handa við að fylla inn í grunninn og leggja rör og lagnir sem þar þurftu að koma. Á 44 ára afmæli Samhjálpar þann 31. janúar voru veggja einingarnar hífðar á sinn stað og var því verki lokið um viku síðar. Unnið var að undirbúningi gólfplötunnar og var því verki lokið 25. febrúar og átti að steypa plötuna mánudaginn 27. febrúar en daginn áður, 26. feb., snjóaði mikið eða 50 cm nýfallinn snjór sem lá yfir jörðinni í fjórar vikur og því var ekkert hægt að vinna við byggingaframkvæmdirnar. Í lok mars hafði snjórinn bráðnað og var þá hafist handa við að steypa plötuna. Áfram var unnið næstu vikurnar við ýmsan frágang og var því verki lokið í byrjun maí. Verktakar á vegum BmVallá sáu um allan þennan þátt. Þá var samið við Trévídd ehf. um að setja þakið á. Vegna anna hjá þeim komust þeir ekki í verkið fyrr en í lok júlí. Kornelíus Traustason húsasmiður og Vörður Leví framvkævmdastjóri Samhjálpar settu alla glugga í bygginguna og glerjuðu og hófst það verk 19. júlí og lokið 26. júlí. Gluggarnir voru smíðaðir hjá Trésmiðjunni Berki á Akureyri og gáfu þeir okkur verulegan afslátt á gluggunum og Íspan ehf. gaf allt glerið. 28. júlí var hafist handa við að hífa inn límtrésbitana í þakið en þeir voru gjöf frá Límtré Vírnet hf í landssöfnuninni. Í lok ágúst var lokið við að smíða þakið og 4. september var dúkurinn settur á timburþakið en síðan mun koma torf ofan á hann. 6. október voru útihurðir settar í, en það gerði Bjarni Þorleifsson trésmíðameistari hússins. Dagana 11. til 17. október var góður hópur sjálfboðaliða frá Bandaríkjunum sem kom til að vinna í byggingunni. Sá hópur kom á vegum Mike Fitzgerald og unnu hann og Kornelíus Traustason, sem stýrði verkinu, frábært starf við ýmsan frágang á húsinu að utan, eins og að ganga frá þakkantinum og vinna við að rífa niður veggi í gömlu byggingunni þar sem nýja eldhúsið á að koma. Miðvikudaginn 18. október var svo efnt til fokheldisfagnaðar og mættu margir af styrktaraðilum byggingarinnar ásamt velunnurum starfsins. Þetta var sýnt í fréttum Stöðvar 2 um kvöldið og er sú frétt inni á Facebook-síðu Samhjálpar.