Upphaf Samhjálpar starfsins má rekja til ársins 1971. Georg Viðar
Björnsson var illa farinn vegna áfengis og eiturlyfjaneyslu. Hann fór í
meðferð hjá LP stiftelsen í Svíþjóð. Eftir meðferðina í Svíþjóð, kom
Georg heim til Íslands og fékk inni í bílskúr á Sogavegi 158. Hann fékk
strax löngun til að hjálpa gömlu drykkjufélögunum og heimsótti m.a
Litla-Hraun, Gunnarsholt, Víðines og Skólavörðustíg 9. Hann fór oft
niður á togarahöfnina og um borð í skipin og ræddi við fyrri félaga sína
um lausnina og frelsið sem hann hafði eignast og reglulega vildu sumir
þeirra fylgja honum heim og þiggja aðstoð í bágum kringumstæðum.
Forstöðumaður Hvítasunnukirkjunnar Fíladelfíu, sem þá var Einar J. Gíslason, varð fimmtugur 31. jan. 1973. Hann vildi að afmælisgjafir hans rynnu til „Samhjálpar.“ Á hátíðarsamkomu, honum til heiðurs, söfnuðust 122.000 krónur. Þá var Samhjálp jafnframt stofnsett. Í mars sama ár var upphæðin komin í 400.000 krónur og hafist var handa við að leita að hentugu húsnæði fyrir meðferðarheimili, og fannst það í Mosfellsdal. Mæðrastyrksnefnd Reykjavíkur átti húsið Hlaðgerðarkot í Mosfellsdal sem þá var til sölu, en aðeins fyrir góðgerðarstarfsemi. Afmælisgjöf Einars J. nægði sem útborgun fyrir Hlaðgerðarkoti og var það keypt því það þótti henta einkar vel sem meðferðarheimili.
Öll fimmtudagskvöld eru samkomur og í kvöld verður afmælissamkoma og afmæliskaffi á eftir. Allir eru velkomnir kl. 20 í Fíladelfíu Hátúni 2 á Samhjálparsamkomu.