Laugardaginn 19. janúar kom stjórn Styrktar- og líknarsjóðs Oddfellowreglunnar í Hlaðgerðarkot og afhenti Guðmundur Eiríksson, Stórsír, Verði Leví Traustasyni, framkvæmdarstjóra Samhjálpar, gjafabréf að andvirði 20 milljónir króna sem er ætlað til áframhaldandi uppbyggingar á meðferðarheimilinu. Þá hefur Skúli fógeti stúka nr. 12 ákveðið að styrkja byggingaframkvæmdirnar um 9 milljónir vegna 50 ára afmælis stúkunnar og 200 ára afmælis Oddfellowreglunnar.Fyrsta Oddfellowstúkan á Íslandi, Ingólfur nr. 1, var stofnuð í Reykjavík árið 1897 en á heimsvísu heldur Oddfellowreglan upp á 200 ára afmæli nú í ár. Sem líknar- og mannræktarfélag hafa Regludeildir um allt land stutt myndarlega við hin ýmsu verkefni í sínu nærumhverfi án þess að almenningur sé alltaf meðvitaður um gjafirnar. Meðlimir reglunnar fylgjast með því sem verið er að gera í samfélaginu og veita gjafir til þeirra verkefna sem þeir finna að aðstoðar þarfnast.
Við afhendingu gjafabréfsins talaði Guðmundur Eiríksson um að verkefnin í Hlaðgerðarkoti séu krefjandi, að það sé unnið í miklu návígi við einstaklinga og tilfinningar og með því að hjálpa bara einum einstaklingi, þá sé unninn stórsigur.
Það hafa margir stórsigrar verið unnir í Hlaðgerðarkoti og munu þeir verða enn fleiri í framtíðinni, ekki síst vegna gjafa og styrkja sem berast frá góðhjörtuðu fólki sem lætur verkin tala.
Með stuðningi Oddfellow, bæði Styrktar- og líknarsjóðnum sem og öðrum Stúkum innan reglunnar, verður hægt að halda uppbyggingu Hlaðgerðarkots áfram og með því að gera meðferðarstarfið enn betra.
Starfsfólk og skjólstæðingar Samhjálpar er óendanlega þakklátt Oddfellowreglunni á Íslandi.